Innlent

Fyrirmyndir finnast víða

Stefán Ingi Stefánsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi telur mikilvægt að fólk líti í kringum sig eftir því sem vel er gert í samfélaginu. fréttablaðið Daníel
Stefán Ingi Stefánsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi telur mikilvægt að fólk líti í kringum sig eftir því sem vel er gert í samfélaginu. fréttablaðið Daníel

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, er einn talsmanna átaksins Til fyrirmyndar. Stefán telur að fyrirmyndir megi finna alls staðar og mikilvægt sé fyrir Íslendinga, sem og aðrar þjóðir, að líta í kringum sig eftir því sem er vel gert í samfélaginu, sérstaklega á tímum sem þessum. Fólk eigi að vera óhrætt við að dást að öðrum og sækja sér fyrirmyndir til þeirra sem gera hlutina best, hverjir svo sem það eru.

„Það er alltaf verið að alhæfa um þjóðina, en ég held að það sé óhætt að segja að Íslendingar geri mikið af því að bera sig saman við það sem best er gert. Margir eru ófeimnir að taka upp hugmyndir eða módel annars staðar frá og er það vissulega ein tegund af fyrirmyndum,“ segir Stefán, en hann fór í heimsókn á Barnaspítala Hringsins í vikunni. Segir hann fólk þar virkilega hafa verið að leggja sig fram af krafti og eljusemi.

„Það veitti mér mjög jákvæðan innblástur og finnst mér það svo sannarlega vera til fyrirmyndar,“ segir hann.  Sjálfur segist Stefán eiga sér fjölmargar fyrirmyndir. 

„Átakið er tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og hún er svo sannarlega ein af þeim manneskjum sem hafa veitt mér innblástur í gegnum tíðina,“ segir hann. „Ég er líka farinn að hugsa meira um hvað afar mínir og ömmur afrekuðu á meðan þau lifðu. Þau gerðu marga merkilega hluti og voru yndislegt fólk.“

Aðspurður segist Stefán sjálfur ætíð reyna að leggja sig verulega fram um að gera hlutina vel, en erfitt sé að vera til fyrirmyndar á öllum sviðum.

„Ég geri hlutina eins vel og ég mögulega get, enda finn ég mér fyrirmyndir í alls konar fólki,“ segir hann. „Þú þarft ekki að vera fullkominn til að veita öðrum innblástur, einungis að gera það sem þú gerir vel og af einlægni.“

Stefán segir að orðinu fyrirmynd fylgi fjölmargar merkingar.

„Það eru margir að upplifa það að verða fyrirmyndir allt í einu. Það er litið upp til þeirra sökum stöðu þeirra innan samfélagsins, þó að það sé ekki ætlunin,“ segir hann. „Svo er fólk sem hefur afrekað merkilega hluti sem eru til bóta fyrir samfélagið, hvað sem fólk gerir þá er gott að hafa nóg af fyrirmyndum að velja úr.“

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×