Viðskipti innlent

FA fagnar dóminum um ólögmæti iðnaðarmálagjalds

Félag atvinnurekenda (FA) fagnar dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í sl. viku þess efnis að innheimta svokallaðs iðnaðarmálagjalds stæðist ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómurinn dæmdi íslenska ríkið til að greiða 26 þúsund evrur í málskostnað til Varðar Ólafssonar sem höfðaði málið.

Þetta kemur fram á vefsíðu FA. Þar segir að dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu „að íslensk stjórnvöld hefðu ekki getað réttlætt þá íhlutun í félagafrelsi Varðar, sem fælist í gjaldinu og ekki tryggt jafnvægis milli réttar hans til að neita aðild að félagi og þeirra hagsmuna sem fælust í því að þróa og efna iðnað í landinu."

Félagafrelsi er einn af hornsteinum stjórnarskrár Íslands og ofangreinds Mannréttindasáttmála, en í því felst m.a. rétturinn til að standa utan félaga. Í félagafrelsi felst ennfremur að aðilar skuli almennt greiða í félög af fúsum og frjálsum vilja til þess að afla hagsmunum eða áhuga sínum brautargengi. Á þessi gildi vill Félag atvinnurekenda leggja áherslu.

Augljóst er að innheimta iðnaðarmálagjalds getur skapað ósanngjarna stöðu gagnvart greiðendum þess. Sem dæmi má nefna að innflutningsfyrirtæki með verkstæðisþjónustu hafa verið rukkuð um iðnaðarmálagjald vegna verkstæðisþjónustu sinnar. Er þetta gert þrátt fyrir að viðkomandi fyrirtæki séu aðilar að Félagi atvinnurekenda og vilji standa vörð um hagsmuni sína í gegnum félagið.

Það skal tekið fram að skoðun Félags atvinnurekenda lýsir á engan hátt afstöðu til þeirrar hagsmunabaráttu sem rekin hefur verið af Samtökum iðnaðarins.

Kjarni málsins er einfaldlega að hagsmunafélög eiga að fjármagna sig sjálf í gegnum gjaldtöku gagnvart félagsmönnum. Í því felst m.a. að félagsmenn eiga að geta gengið úr viðkomandi samtökum, kjósi þeir svo, og þar með falli gjaldtaka niður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×