Innlent

Gylfi Magnússon: Best að stjórnvöld gefi ekki skipanir

Tugir, ef ekki hundruð, lögfræðinga hafa skoðað gengislánin á síðustu níu árum án þess að sjá nokkurt athugavert við þau, segir forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Hann segir margt í uppnámi eftir myntkörfudóma Hæstaréttar. Viðskiptaráðherra vonast til að óvissunni linni á næstu dögum um hvernig eigi að greiða af gengislánum næstu mánuði.

Hafi óvissa ríkt um lögmæti myntkörfulána hér um alllanga hríð er óvissan um hvernig eigi að bregðast við ólögmæti þeirra ekki minni. Ýmsir kostir eru í stöðunni, einhverjir hafa velt upp þeim möguleika að hægt væri að verðtryggja lánin, þau sem voru til fimm ára eða lengur. Þannig segir Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, fráleitt að fella niður verðtryggingu höfuðstóls lána af sumum lánum en viðhalda henni á öðrum. Hann vill að verðtrygging færist nú á gengistryggðu lánin, að öðrum kosti sjái almenningur fram á ennfrekari skattahækkanir og niðurskurð. Undir þetta sjónarmið tekur Mörður Árnason þingmaður Samfylkingar.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, fordæmir þessa hugmynd á vef Morgunblaðsins í dag og telur hana kornið sem fyllti mælinn fari ríkisstjórnin að setja verðtryggingu á lánin því þá muni fólk grípa til aðgerða.

Fulltrúar banka og bílalánafyrirtækja mættu á fund ríkisstjórnar snemma í morgun og ítrekuðu vilja sinn til að stjórnvöld sendu frá sér samræmda lausn. Tilmæli til lánafyrirtækjanna um hvernig fólk ætti að greiða af lánum þar til endanlegur úrskurður félli hjá Hæstarétti um hvernig vexti lánin eigi nú að bera. Það var hins vegar nokkuð ljóst af máli viðskiptaráðherra, að ríkisstjórnin hygðist ekki bregðast við þessu kalli:

„Það er svo sem ekki útilokað. Ég teldi hins vegar best að við gætum leyst þetta án þess að stjórnvöld reyndu að gefa fyrirskipanir hver lausnin ætti að vera," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann vonast þó til að á allra næstu dögum verði fundin sameiginleg lausn á málinu, þótt hún verði líklega ekki í nafni ríkisstjórnar.

Aðspurður af hverju Fjármálaeftirlitið hafi ekki haft afskipti af þessum lánum segir Gunnar Andersen, forstjóri FME: „Á þessum níu árum komu náttúrulega tugir ef ekki hundruð lögfræðinga af þessu og skoðuðu þetta og fundu ekkert af Þessu. Þeir túlkuðu það þannig að þetta væru lögmæt lán."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×