Innlent

Borgin kannar kosti sameiningar

Álftanes. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að kannaðir verði kostir sameiningar sveitarfélaganna.
Álftanes. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að kannaðir verði kostir sameiningar sveitarfélaganna. Mynd/GVA

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að kannaðir verði kostir sameiningar Reykjavíkurborgar og Sveitarfélagsins Álftaness og lýsir sig tilbúið til viðræðna við bæjarstjórn Álftaness. Borgarstjóri segir sjálfsagt að kanna málið því hann vilji að allir séu glaðir.

Í skoðanakönnun um vilja Álftnesinga til sameiningar sem haldin var í mars kom fram að flestir íbúar vildu sameinast Garðabæ eða Reykjavík. Í framhaldi af því hefur bæjarstjórn Álftaness óskað eftir viðræðum við fulltrúa Reykjavíkurborgar um vilja og mögulega hagræðingu af sameiningu við Reykjavík.

Í samstarfssamningi Samfylkingar og Besta flokksins er lögð áhersla á að Reykjavík taki forystu í umræðum um nánari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sameining Reykjavíkur og Álftaness gæti verið fyrsta skrefið í átt að markvissari og nánari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir að í þeirri sýn felist jafnframt að sjálfstæði hverfa í ákvörðunum, þjónustu og rekstri verði aukið.

Að sögn Jóns Gnarr, borgarstjóra, þá er sjálfsagt að kanna málið. „Það er mér mikið að skapi að tala við sem flesta og að allir séu glaðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×