Viðskipti innlent

Hlutfall erlendra farþega aldrei verið hærra hjá Icelandair

Icelandair flutti alls 1,3 milljónir farþega í reglulegu áætlunarflugi á síðasta ári, sem eru 9% færri farþegar en á árinu 2008. Félagið dró úr framboði sínu um 9% á árinu. Hlutfall erlendra farþega hefur aldrei verið hærra hjá félaginu.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að Sætanýting í flugi Icelandair var þannig 75% á árinu 2009, eða sú sama og árið á undan og svipuð og fjögur undanfarin ár. Icelandair skiptir farþegum sínum gjarnan eftir þremur mörkuðum, ferðamenn á leið til Íslands, Íslendinga á leið til útlanda og farþega á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Á árinu 2009 varð umtalsverð breyting á hlutföllum milli þessara þriggja markaðshópa. Farþegum til Íslands fjölgaði um 9%, og fóru úr 40% í 49% allra farþega félagins. Þetta hlutfall erlendra ferðamanna meðal farþega Icelandair hefur aldrei verið svo hátt áður.

Íslendingar á leið til útlanda voru um 22% farþega félagsins á árinu 2009. Þeir voru 31% á árinu 2008, og fækkaði þannig um þriðjung milli ára. Farþegar á leið um Keflavíkurfluguvöll milli heimsálfanna voru 29% af heildinni, líkt og á árinu 2008. Flugfélag Íslands flutti 375 þús. farþega samanborið við 416 þús. farþega á árinu 2008. Sætanýting var 69% á árinu 2009 samanborið við 67% á árinu 2008.

Leiguflug Á sviði leiguflugs og flugvélaviðskipta markaðist árið nokkuð af þeim erfiðu aðstæðum sem uppi eru í alþjóðaflugrekstri. Sérstaklega sáust þessa merki hjá SmartLynx í Lettlandi. Seldir blokktímar jukust um 2% milli ára en nýting flugflotans fór úr 97% í 94%.

Framboð farmflutningafyrirtækjanna Bluebird og Icelandair Cargo minnkaði um 28% milli áranna 2008 og 2009. Flutt magn minnkaði um 37%.

Framboð hótelherbergja hjá Icelandair Hotels var svo til óbreytt milli ára en nýting fór úr 66% í 68%.

Á fyrsta ársfjórðungi 2010 eykur Icelandair framboð sitt um 20% frá sama tíma árið 2009. Bókanir fyrir fyrsta ársfjórðung hafa farið vel af stað og eru nú 25% yfir því sem var á sama tíma fyrir ári. Þrátt fyrir að einhver batamerki megi greina á markaði, þá má búast við að nokkur tími muni líða þar til eftirspurn og einingaverð í leiguflugi réttir úr kútnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×