Viðskipti innlent

Moody´s breytir horfum Íslands úr neikvæðum í stöðugar

Matsfyrirtækið Moody´s hefur breytt horfum sínum fyrir lánshæfiseinkunn Íslands úr neikvæðum og yfir í stöðugar. Þetta kemur fram í nýju áliti Moody´s sem birt er í dag. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá Moody´s stendur í Baa3.

Í áliti Moody´s segir að ástæðan fyrir breyttum horfum sé nýlega önnur endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Sú endurskoðun hafi veitt landinu aðgang að lánum frá hinum Norðurlöndunum. Þau lán gera það að verkum að lausafjárstaða ríkisins sé nú örugg.

Í álitinu er haft eftir Kenneth Orchard yfirmanns þjóðaráhættumats hjá Moody´s að horfunum hafa verið breytt í neikvæðar fyrir nokkrum vikum þar sem óvissa ríkti um getu ríkissjóðs um að geta staðið við greiðslu á evruskuldabréfum á næsta ári og upphafi ársins 2012. Með aðganginum að norrænu lánunum sé þeirri óvissu nú eytt.

„Nú er nokkuð öruggt að Ísland getur staðið í skilum á þessum evrubréfum," segir Orchard en eins og kunnugt er af fréttum er hér um tvo skuldabréfaflokka að ræða, annan upp á milljarð evra og hinn upp á 250 milljónir evra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×