Viðskipti innlent

Þeir sem forrituðu Icesave gera það gott í Hollandi

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Hollenskt fyrirtæki sem ætlar sér stóra hluti í netbankaheiminum hefur ráðið til sín íslenska forritara hjá Landsbankanum sem hönnuðu Icesave til að selja netbankalausnir eins og Icesave til erlendra banka.

Hollenska fyrirtækið FiveDegrees sérhæfir sig í lausnum fyrir erlenda banka. Fyrirtækið hyggst selja erlendum fyrirtækjum ýmsar netbankalausnir, eins og söfnun innlána á netinu, sambærilegar Icesave og einkabankalausnir sambærilegar þeim sem íslenskir bankar bjóða upp á.

Hugmyndin um söfnun innlána á netinu fæddist ekki hjá Landsbankanum með Icesave því mörg önnur fyrirtæki höfðu rutt brautina en Landsbankinn náði miklum árangri því hugmyndin var sérstaklega vel útfærð.

Og nú hefur hollenska fyrirtækið FiveDegrees ráðið fimm íslenska sérfræðinga, þar af þrjá sem áður unnu sem forritarar hjá Landsbankanum til að hanna og þróa netbankalausnir til að selja erlendum bönkum. Meðal verkefna forritaranna sem unnu hjá Landsbankanum var forritun fyrir afurðir Landsbankans eins og Icesave.

Björn Hólmþórsson einn stofnenda FiveDegrees og var áður yfirmaður tölvudeildar hjá Landsbankanum sagði í samtali við fréttastofu í dag að Icesave hafi verið fyrsti innlánsreikningurinn í Hollandi með fullkomlega rafræn og pappírsslaus viðskipti. Í dag væru flestir sem byðu upp á netbanka með innlánssöfnun að styðjast við sambærilegt fyrirkomulag þar í landi.

FiveDegrees er meðal annars að vinna fyrir hollenska banka sem voru í samkeppni við Icesave í Hollandi fyrir bankahrunið. Verið er að setja á laggirnar nýjan banka þar í landi á næsta ári og verður kerfi frá FiveDegrees notað við rekstur hans.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×