Innlent

Jón Gnarr: Starfandi stjórnarformaður verndar almannahagsmuni

Sjálfstæðismenn og Vinstri grænir í minnihluta borgarstjórnar segja skjóta skökku við að Besti flokkurinn og Samfylkingin ráði stjórnarformann til Orkuveitunnar fyrir tæpa milljón á mánuði á sama tíma og niðurskurður er boðaður í borginni. En nýi meirihlutinn í borginni hefur ákveðið að ráða starfandi stjórnarformann til Orkuveitunnar.

Minnihlutinn í borgarráði Reykjavíkur mótmælir harðlega þeirri tillögu að stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur verði gerður að starfandi stjórnarformanni og verði þannig hluti af launuðu stjórnendateymi fyrirtækisins. Gangi tillagan eftir fær stjórnarformaðurinn, Haraldur Flosi Tryggvason, um 920 þúsund krónur í mánaðarlaun. Auk þess gangi ráðningin þvert á nýsamþykkt lög sem eiga að skýra skil milli starfsfólks og stjórnar.

Sóley Tómasdóttir, fulltrúi vinstri grænna, segir ráðninguna ganga þvert á fyrirheit meirihlutaflokkanna um hagræðingu í stjórnkerfi til að vernda velferðar- og almannaþjónustu.

„Það skýtur skökku við að fyrsta ákvörðun meirihluta sem ætlar að hagræða í yfirstjórn stjórnkerfisins hafi verið að ráða inn manneskju á 920 þúsund krónur á mánuði í yfirstjórn Orkuveitu Reykjavíkur," segir Sóley.

Jón Gnarr, borgarstjóri hafnar því að ráðningin gangi þvert á lög. En gengur ráðningin ekki gegn fyrirheitum Besta flokksins? „Þvert á móti. Ég tel okkur vera að vernda almannahagsmuni mjög vel á þennan hátt," segir Jón. „Með því að velja þarna fagfólk í stjórn Orkuveitunnar sem þykir algjör nýjung hér á landi."




Tengdar fréttir

Vilja starfandi stjórnarformann

Nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík mun leggja til að Haraldur Flosi Tryggvason verði starfandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR), samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Það þýðir að hann mun gegna formennsku í fullu starfi á hærri launum en fyrrum formenn.

Tekist á um Orkuveituna í borgarráði

Minnihlutinn í borgarráði Reykjavíkur mótmælir harðlega þeirri tillögu að stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur verði gerður að starfandi stjórnarformanni og verði þannig hluti af launuðu stjórnendateymi fyrirtækisins. Gangi tillagan eftir fær stjórnarformaðurinn, Haraldur Flosi Tryggvason um 920 þúsund krónur í mánaðarlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×