Innlent

„Þau geta bara vandræðast með þessar undirskriftir innanhúss“

Hópurinn við afhendinguna í morgun
Hópurinn við afhendinguna í morgun

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, fékk rúmlega 700 undirskriftir mótmælenda við yfirlýsingu um árásir á alþingi afhentar í morgun. Ásta Ragnheiður fékk undirskriftirnar afhentar úr höndum Ragnheiðar Ástu, fyrrum þulu RÚV, en Ásta Ragnheiður hitti þrjátíu manna hóp fyrir utan Alþingishúsið.

Bryndís Björgvinsdóttir, þjóðfræðingur og einn aðstandenda yfirlýsingarinnar, segir að afhendingin hafi tekið stuttan tíma.

„Þetta tók skjótt af má segja. Ásta Ragnheiður hefur haldið því fram að þetta mál komi sér sem forseta alþingis ekki við, en yfirlýsingin gengur út á það að setja mótmæli, eins og búsáhaldarbyltinguna, í samhengi við heimsókn níumenningana.

Vegna þess að við trúum því að heimsókn þeirra hafi verið ofbeldislausgjörningur, sem var vissulega hávaðasamur og truflaði þinghald, en við teljum að þau séu ekki sekari en þeir þúsundir sem tóku þátt í að trufla þinghald í búsáhaldarbyltingunni með mun meiri hávaða og mun meiri afleiðingum.," segir Bryndís. „Ég var að reyna segja henni þetta, því þetta kæmi henni víst við, vegna þess að við værum að setja þetta í stærra samhengi," segir Bryndís og bætir við að hópurinn liti sem svo á að það væri verið að gera níumenningana að blórabögglum. „Við ætlum ekki að líða það að þeir yrðu sóttir til saka án þess að skoða málið í stærra samhengi."

Um þrjátíu manns afhentu undirskriftirnar og sagði Ásta Ragnheiður við afhendinguna að hún væri fulltrúi löggjafarvaldsins en ekki dómsvaldsins og hefði því ekki mikið um málið að segja og gekk svo í burtu.

Bryndís segist ekki vera bjartsýn að Ásta og Alþingi muni gera eitthvað í málinu. „Nei, ég býst ekkert við því. Ég býst í rauninni ekki við neinu. Þetta mál er vandræðagripur innan alþingis, þau geta þá bara vandræðast með þessar undirskriftir innanhúss."

Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×