Innlent

Ákvað varaformannsframboð á hlaupum í Laugardal

Lára Óskarsdóttir íslenskukennari ætlar að bjóða sig fram til varaformanns Sjálfstæðisflokksins á móti Ólöfu Nordal á landsfundinum sem verður haldinn um helgina. Hún segist hafa tekið ákvörðunina þegar hún var að hlaupa í Laugardalnum nýlega og tjáði fjölskyldu sinni í morgun frá framboðinu.

Lára segist hafa verið flokksmaður lengi en hefur aldrei skipt sér af stjórnmálum áður. „Þetta er stórt skref fyrir mig." Hún segist hafa tekið ákvörðunina vegna þess að hún vilji hafa áhrif. „Mér finnst of mikið verið að tala í samfélaginu um allskonar hluti sem ég heyri ekki forystumenn stjórnmálaflokkanna tala um. Mér finnst að við getum ekki verið út í samfélaginu að röfla og gera ekki neitt í hlutunum. Við eigum að koma fram og segja eitthvað."

Lára segist vera stökkva út í djúpu laugina. „Ég er að fara á móti mjög góðri konu (Ólöfu Nordal) og ég sætti mig alveg við hana sem varaformann. En ég held að ef það verði ekki nein kosning þarna þá komum við ekki rosalega vel út í umræðunni sem flokkar. Ég lít þannig á að öll umræða er góðra gjalda verð, og við þurfum hana núna."

„Ég tel mig geta stuðlað að breidd innan flokksins þó svo ég hafi ekki skipt mér af stjórnmálum fyrr en áhugi minn vaknaði eins og margra annarra eftir hrunið."

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á morgun klukkan 16. Enginn hefur boðið sig fram gegn sitjandi formanni, Bjarna Benediktssyni, en ekki er nauðsynlegt að tilkynna fyrirfram um framboð.

Ásamt Láru ætlar Ólöf Nordal að bjóða sig fram í embætti varaformanns.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×