Viðskipti innlent

Engar grundvallarbreytingar á höftum fyrr en í mars 2011

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri áréttaði að eitt markmiða í áætlun stjórnvalda væri að skapa skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishafta, enda hefðu þau í för með sér efnahagslegan og félagslegan kostnað sem hefði tilhneigingu til að aukast eftir því sem höftin vöruðu lengur.
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri áréttaði að eitt markmiða í áætlun stjórnvalda væri að skapa skilyrði fyrir afnámi gjaldeyrishafta, enda hefðu þau í för með sér efnahagslegan og félagslegan kostnað sem hefði tilhneigingu til að aukast eftir því sem höftin vöruðu lengur. Fréttablaðið/Vilhelm
Gjaldeyrishöft Seðlabanka Íslands standa óhögguð í það minnsta þar til í mars á næsta ári. Þetta kom fram í sérstakri yfirlýsingu sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri flutti á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar bankans í gær.

Már sagði yfirlýsinguna gefna til þess að útskýra „stefnuramma og núverandi áform varðandi afnám gjaldeyrishafta“ og áréttaði að í henni væri ekki að finna nýjar upplýsingar aðrar en að breytingar yrðu ekki gerðar á höftunum fyrr en í mars.

Um leið kom fram í yfirlýsingu seðlabankastjóra að þótt höftunum yrði ekki breytt útilokaði það ekki aðgerðir til þess að undirbúa afgerandi afnám hafta. „Hér gæti verið um að ræða aðgerðir til að leyfa, gegnum skipulögð uppboð, skipti á löglega fengnum aflandskrónum fyrir löglegar erlendar eignir innlendra aðila,“ sagði hann og kvað einnig koma til greina að leyfa fjárfestingu löglega fenginna aflandskróna í sérstökum langtímaverkefnum eða öðrum sértækum verkefnum hér á landi.

Í umfjöllun greiningardeildar Arion banka um yfirlýsingu seðlabankastjórans segir að með henni sé mörkuð ákveðin fjarlægð á milli Seðlabankans sjálfs og ákvörðunar um afnám hafta, sem sé raunverulega á forræði ríkisstjórnar Íslands.

Greining Íslandsbanka bendir á að Seðlabankinn hafi undanfarnar vikur sætt nokkurri gagnrýni fyrir að veita „ógagnsæjar og villandi“ upplýsingar varðandi áform sín um afnám gjaldeyrishafta, sem hafi meðal annars valdið miklum óróa á skuldabréfamarkaði.

„Yfirlýsing seðlabankastjóra frá því í morgun markar því þáttaskil í upplýsingagjöf bankans varðandi gjaldeyrishöftin og sýnir aukna viðleitni til að tryggja að allir markaðsaðilar fái sömu upplýsingar á sama tíma. Ljóst er að yfirlýsingin slær á allar væntingar þess efnis að fyrstu skref varðandi afnám haftanna verði stigin fyrir áramót eins og mátti skilja af yfirlýsingum bankans frá því fyrr í haust,“ segir í umfjöllun bankans.

Í yfirlýsingu sinni rakti Már sögu haftanna sem sett voru á í nóvember 2008 sem hluti af efnahagsáætlun stjórnvalda með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann benti á að höftin væru frávik frá skuldbindingum Íslands um frjálst flæði fjármagns samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). „Samkvæmt honum eru slík höft aðeins leyfð sem neyðarráðstöfun til skamms tíma. Höftin hafa verið kynnt stofnunum EES, eins og mælt er fyrir um í samningnum, án þess að mótbárur hafi komið fram. Það væri samt sem áður brot á EES-samningnum ef ekki er unnið í góðri trú að afnámi gjaldeyrishaftanna eftir að þau skilyrði sem sköpuðu neyðarástand eru ekki lengur til staðar.“

Már áréttaði að í gildandi áætlun um afnám gjaldeyrishafta væri að finna nokkur meginskilyrði. Þar væru mikilvægust skilyrði um þjóðhagslegan stöðugleika, og þar með talið trúverðugar aðgerðir til að tryggja sjálfbær ríkisfjármál, auk minnkandi verðbólgu, trausts fjármálakerfis og nægilegs gjaldeyrisforða. „Tvö af þessum skilyrðum hafa verið uppfyllt, en traust fjármálakerfi er ekki fyrir hendi,“ sagði hann en vísaði um leið til þess að stjórnvöld hefðu í síðustu viljayfirlýsingu sinni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skuldbundið sig til að grípa til viðeigandi aðgerða og endurfjármagna bankakerfið fyrir áramót ef á þyrfti að halda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×