Viðskipti innlent

Kortavelta sýnir minnkandi samdrátt í einkaneyslu

Kortavelt á síðasta ársfjórðungi í fyrra sýnir að minnkandi samdráttur er í einkaneyslunni hérlendis og raunar er samdrátturinn minni en spár gerðu ráð fyrir.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar segir að útlit er fyrir að einkaneysla hér á landi hafi dregist saman um 3% á síðasta fjórðungi nýliðins árs, og að í heild hafi samdráttur einkaneyslunnar numið 15% á síðasta ári. Þetta má ráða af nýbirtum tölum Seðlabankans yfir þróun kortaveltu á síðasta ári, en sterk fylgni er milli þróunar hennar og einkaneyslu.

Í tölunum kemur fram að kreditkortavelta nam alls 23,4 milljörðum kr. í desember síðastliðnum, en það samsvarar 14,5% hækkun í krónum talið frá jólamánuðinum árið 2008. Sé tekið tillit til breytinga í gengi og innlendu verðlagi var raunaukning kreditkortaveltu ríflega 6% á tímabilinu.

Gleggri mynd af neysluhegðun landans í aðdraganda jólanna fæst hins vegar með því að horfa bæði til veltu vegna kreditkorta og debetkorta einstaklinga. Debetkortavelta einstaklinga innanlands í desember síðastliðnum nam 32,6 milljörðum kr. og hækkaði hún í krónum talið um 3,6% frá sama mánuði árið 2008.

Að raunvirði minnkaði debetkortaveltan hins vegar um hátt á fjórða prósent á milli ára. Minnkandi debetkortavelta vó því upp aukningu kreditkortaveltunnar, og í heild stóð kortaveltan, reiknuð með þessum hætti, nánast í stað að raunvirði í jólamánuðinum samanborið við sama mánuð árið 2008.

Einkaneysla dróst mikið saman á fyrri hluta ársins frá sama tíma í fyrra, en eftir því sem liðið hefur á árið hefur samdrátturinn heldur mildast. Einfalt líkan, þar sem metið er samband raunbreytinga kortaveltu og einkaneyslu, gefur þá niðurstöðu að einkaneysla kunni að hafa dregist saman um u.þ.b. 3% á síðasta ársfjórðungi í fyrra.

Reynist sú spá nærri lagi jafngildir það því að einkaneysla hafi skroppið saman um hér um bil 15% á nýliðnu ári. Það er heldur minni samdráttur en gert var ráð fyrir í nýlegum spám fjármálaráðuneytis, Seðlabankans og OECD, en þar var spáð 16-17% samdrætti einkaneyslu á árinu 2009. Engu að síður er hér um afar snarpan samdrátt einkaneyslu að ræða, einkum þegar haft er í huga að einkaneysla dróst einnig saman um nærri 8% árið 2008 frá hinu margfræga neysluári 2007.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×