Erlent

Mikil hætta af yfirgefnum borholum

Olíulekinn í Mexíkóflóa í maí er stærsta umhverfisslys sinnar tegundar í Mexíkóflóa. Þúsundir borholna eru vanhirtar og yfirgefnar í flóanum samkvæmt rannsókn. fréttablaðið/ap
Olíulekinn í Mexíkóflóa í maí er stærsta umhverfisslys sinnar tegundar í Mexíkóflóa. Þúsundir borholna eru vanhirtar og yfirgefnar í flóanum samkvæmt rannsókn. fréttablaðið/ap
Mikil hætta getur stafað af um 3.500 vanhirtum og yfirgefnum olíuborholum í Mexíkóflóa, samkvæmt fréttum Asso-ciated Press-fréttastofunnar, sem hefur rannsakað málið. Borholurnar eru í opinberum skjölum sagðar hafa verið yfirgefnar tímabundið, en hafa margar hverjar verið það svo árum og jafnvel áratugum skiptir. Að minnsta kosti 23 þúsund lokaðar borholur til viðbótar eru í flóanum.

Yfirgefnar borholur geta valdið miklum umhverfisskaða, og olíuslysið í flóanum í apríl varð einmitt þegar verið var að steypa í borholu og undirbúa tímabundna lokun.

Sérfræðingar sem rætt hefur verið við segja að þrýstingur geti myndast á nýjan leik í yfirgefnum borholum, rétt eins og í eldfjöllum. Það geti leitt til leka. Þá hafi sjór og neðanjarðarþrýstingur áhrif á steypu, sem notuð er til að loka þeim, og pípulagnir og geti orðið til þess að bæði veikist. Steypa geti brotnað eða tærst upp, rétt eins og hún geri ofanjarðar í byggingum og vegum.

Þar sem mögulegt er að setja borholur í notkun á ný er þeim holum sem er tímabundið lokað yfirleitt ekki lokað eins vel og þeim sem er varanlega lokað. Reglur um tímabundið yfirgefnar borholur skikka olíufyrirtækin til að setja fram áætlanir innan árs um annaðhvort áframhaldandi notkun á þeim eða algjöra lokun. Þessar reglur eru þó gjarnan sveigðar og virðist sem stjórnvöld rannsaki ekki hvort reglum er fylgt heldur taki skjöl frá olíufyrirtækjunum gild. Tugþúsundir olíuborholna eru taldar illa lokaðar, ýmist vegna þess að þeim var lokað fyrir tíma strangra reglna um slíkt eða vegna þess að eigendur þeirra brjóta reglurnar. Fyrirtæki freistast til að loka holunum ekki nægilega vel, þar sem það er bæði tímafrekt og dýrt.

Þátt fyrir viðvaranir um leka hafa hvorki stjórnvöld né iðnaðurinn látið meta stærð vandans og því veit enginn hversu margar borholur leka né hversu mikið.

thorunn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×