Handbolti

Kiel vann nauman útisigur á Rhein-Neckar Löwen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson var markahæstur hjá Rhein-Neckar Löwen í kvöld.
Ólafur Stefánsson var markahæstur hjá Rhein-Neckar Löwen í kvöld. Mynd/GettyImages
Momir Ilic tryggði Kiel 23-22 útisigur á Rhein-Neckar Löwen í í stórleik þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld. Rhein-Neckar Löwen fékk síðustu sóknina í leiknum en tókst ekki að nýta hana.

Ólafur Stefánsson var markahæstur hjá Rhein-Neckar Löwen með sex mörk og Snorri Steinn Guðjónsson skoraði eitt mark en hann fékk ekki mikið að spila í kvöld. Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir Kiel.

Aron var í byrjunarliði Kiel og skoraði fyrsta mark leiksins en Kiel komst í 4-0. Fyrsta mark Rhein-Neckar Löwen kom ekki fyrr en eftir rétt tæpar tólf mínútur þegar Ólafur Stefánsson kom boltanum inn á línuna til Andrei Klimovets.

Ólafur átti þátt í fyrstu þremur mörkum Rhein-Neckar Löwen sem kom sér aftur inn í leikinn og var komið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 11-9.

Kiel náði að jafna leikinn og komast yfir um miðjan hálfleikinn. Liðin skiptust síðan á að vera með frumkvæðið en spennan var mikil og jafnt á flestum tölum á lokasprettinum.

Rhein-Neckar Löwen komst í 21-20 en Kiel svaraði þá með tveimur mörkum og tók forustuna áður en Rhein-Neckar Löwen náði að jafna leikinn á ný. Það var síðan Momir Ilic sem skoraði sigurmark þýsku meistarana hálfri mínútu fyrir leikslok.

  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×