Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Þjóðfélagið þarf að venjast nýjum veruleika

Valur Grettisson skrifar
Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson.

„Hér ríkir innlend skuldakreppa," sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í viðtali við Sigurjón M. Egilsson, í þættinum Sprengisandi, sem var á Bylgjunni í morgun.

Þar sagði Már meðal annars að fjöldi heimila væru í erfiðri stöðu, sérstaklega þau sem tókum mikið af lánum á árunum 2004 til 2008. Már sagði nauðsynlegt að taka á þessu og vildi meina að vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands hefði hjálpað talsvert í þeirri vegferð.

Már sagði svartagallsraus gáfumanna ekki sanngjarnt enda margt skárra nú en áður. Þannig benti Már á að ríkissjóður hefði fjármagnað sig með láni með óverðtryggðum vöxtum til tveggja ára.

„Allir í heiminum í kring horfa á þetta með öfundaraugum," sagði Már en aðspurður hver hafi lánað ríkinu svaraði hann því til að það hefðu verið lífeyrissjóðirnir.

„En það er margt jákvætt í þessu," sagði Már.

Seðlabankastjórinn benti á að i viðtalinu að kreppan hér væri í hlutfallslegu mæli bundin við höfuðborgarsvæðið.

„Þetta er ekki eins og þegar síldin hvarf hér um árið," sagði Már sem gerði þó ekki lítið úr áhrifum kreppunnar á landsbyggðina. Hann benti hinsvegar á að bankarnir og byggingaiðnaðurinn hefði farið verst út úr kreppunni. Helsta vígi þeirra var höfuðborgarsvæðið.

Már sagði þjóðina þurfa að venjast nýjum veruleika „Við förum ekkert til baka varðandi atvinnu- og neyslustig," sagði Már sem sagði þjóðfélagið þurfa að venjast nýrri tilveru sem líktist ekkert hraðanum og atvinnustiginu fyrir kreppu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×