Innlent

Olíuboranir hafnar við Grænland

Breskt olíufélag hóf í síðustu viku olíuboranir við vesturströnd Grænlands, norðan heimskautsbaugs, og notar bæði borpall og borskip. Olíufundur þar gæti haft umtalsverð áhrif hérlendis.

Umsóknir frá þrettán olíufélögum í fyrrahaust sýna þann mikla áhuga sem er á olíuleit við Grænland um þessar mundir en Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna áætlaði fyrir tveimur árum að í kringum þetta næsta nágrannaland Íslands leyndust einhverjar mestu ófundnu olíulindir jarðar.

Tíu ár eru frá því fyrsta og eina holan til þessa var boruð við strönd Grænlands en nú er breska félagið Cairn Energy byrjað á tveimur holum. Þær eru báðar norðan heimsskautsbaugs, í hafinu norðvestur af höfuðstaðnum Nuuk, um 175 kílómetra frá Diskó-eyju.

Þarna er hafsdýpið 300 til 500 metrar en olíuborpallurinn Stena Don borar aðra holuna, og borskipið Stena Forth hina. Áætlað er að borunin standi yfir næstu tvo mánuði og að borað verði niður á allt að 4.200 metra dýpi. Olíuiðnaðurinn fylgist spenntur með árangrinum en meðal olíufélaga sem bíða í startholunum eru Exxon, Chevron og Statoil.

Það er einnig vert fyrir Íslendinga að fylgjast grannt með því að olíufundur við vesturströnd Grænlands er líklegur til að hleypa lífi í olíuleit við austurströndina en þar eru aðstæður með þeim hætti að leit og vinnslu verður vart sinnt án þjónustu frá Íslandi. Dæmi um tekjur Íslendinga af slíkum umsvifum er þegar farin að sjást en í fyrrasumar sótti þriggja skipa olíurannsóknarleiðangur við Austur-Grænland þjónustu í Hafnarfjörð og hafði íslenskt hjálparskip, Valberg frá Vestmannaeyjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×