Viðskipti innlent

Ársverkum fækkaði um 28 þúsund

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, kynnti efni Peningamála, efnahagsspár bankans, á kynningarfundi á miðvikudag. Fréttablaðið/Pjetur
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, kynnti efni Peningamála, efnahagsspár bankans, á kynningarfundi á miðvikudag. Fréttablaðið/Pjetur

Störfum fækkað mun meira í kjölfar kreppunnar og meira en Seðlabanki Íslands gerði ráð fyrir í fyrri spá sinni. Þetta kemur fram í nýrri hagspá bankans. Spáð er að áfram dragi úr vinnuaflsnotkuninni fram á mitt næsta ár, en þá taki hún að aukast á ný.

„Brottflutningur af landinu hefur einnig verið meiri en áður var talið. Nú er talið að vinnuafls­notkunin hafi dregist saman um tíu prósent árið 2009 frá árinu áður, í stað sjö prósenta í janúarspánni,“ segir í Peningamálum, efnahagsriti bankans. Samdrátturinn þýðir að á síðasta ársfjórðungi 2009 höfðu hátt í 28 þúsund ársverk tapast frá því að vinnuaflsnotkunin náði hámarki í aðdraganda kreppunnar.

Um leið er ljóst að framleiðni hefur aukist því vinnuaflsnotkun dróst meira saman en landsframleiðslan. Því áætlar Seðlabankinn nú að launakostnaður samkvæmt þjóðhagsgrunni hafi einungis hækkað um innan við eitt prósent í fyrra í stað tæplega fimm prósenta.

„Innlendur vinnumarkaður í kjölfar fjármálakreppunnar var því mun sveigjan_legri en fyrri áætlanir höfðu bent til. Skýrir það að hluta af hverju verðbólga jókst ekki meira en raun bar vitni í kjölfar gengishrunsins og af hverju atvinnuleysi hefur ekki aukist meira eftir hrunið,“ segir í Peningamálum. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×