Lífið

Kynnti dagskrána með soninn í fanginu

Katrín Brynja Hermannsdóttir ásamt syni sínum sem verður skírður í næsta mánuði. fréttablaðið/vilhelm
Katrín Brynja Hermannsdóttir ásamt syni sínum sem verður skírður í næsta mánuði. fréttablaðið/vilhelm

„Þetta var smá flipp bara," segir sjónvarpsþulan Katrín Brynja Hermannsdóttir, sem kynnti dagskrá sunnudagskvöldsins með tveggja mánaða son sinn í fanginu.

„Ég stóðst ekki mátið. Ég var með hann þarna með mér og þetta er að verða búið. Ég hugsaði bara: „Ókei, þá verð ég bara rekin," segir Katrín Brynja, sem fékk ekki leyfi yfirmanna sinna fyrir uppátækinu.

Hún segir brátt skilið við Sjónvarpið rétt eins og hinar þulurnar og vill því kveðja með stæl. „Mér finnst þetta svolítið leiðinlegt. Við erum að hverfa af skjánum ein af annarri án þess að það sé neitt sérstakt gert. Það var ekki hægt að sleppa þessu."

Sonur hennar, sem verður skírður í næsta mánuði, grét aðeins í settinu en stóð sig annars eins og hetja. „Hann var aðeins að tjá sig," segir Katrín, sem hefur fengið mjög góð viðbrögð við uppátækinu.

Rúm níu ár eru síðan Katrín hóf störf sem þula og segir hún tímann hafa verið æðislegan. Hún viðurkennir að erfitt verði að hætta. „Þetta verður mjög skrítið. Það er svo æðislegt fólk sem er að vinna þarna. Ég hugsa að ég hefði endað þarna með göngugrindina ef þeir hefðu ekki lagt þetta niður." - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.