Erlent

Atvinnuleysi mælist 7,5 prósent

Vinnumálaráðherrann Ursula von de Leyen lak tölum til fjölmiðla á miðvikudag sem bentu til mun minna atvinnuleysis en raunin varð. Hér ræðir hún við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.Fréttablaðið/AP
Vinnumálaráðherrann Ursula von de Leyen lak tölum til fjölmiðla á miðvikudag sem bentu til mun minna atvinnuleysis en raunin varð. Hér ræðir hún við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.Fréttablaðið/AP
Atvinnuleysi mælist nú 7,5 prósent í Þýskalandi, sem merkir að rúm 3,1 milljón manna er þar án atvinnu, samkvæmt upplýsingum hagstofu Evrópusambandsins.

Óendurskoðaðar tölur sem Ursula von der Leyen, vinnumálaráðherra Þýskalands, lak til fjölmiðla þar í landi á fimmtudag bentu til sjö prósenta atvinnuleysis. Slíkar tölur hafa ekki sést í Þýskalandi í átján ár, síðan árið 1992.

Þrátt fyrir það geta Þjóðverjar verið sáttir. Dregið hefur úr atvinnuleysi þar samfleytt í sextán mánuði og er það nú nokkuð undir meðalatvinnuleysi á evrusvæðinu. Þar mælist það 10,1 prósent og hefur aldrei verið meira.

Minnst er atvinnuleysið í suðausturhluta Þýskalands, sem áður tilheyrði Vestur-Þýskalandi, eða nálægt fjórum prósentum. Í fyrrverandi Austur-Þýskalandi er það hins vegar yfir tíu prósentum.

Financial Times hefur eftir þýskum sérfræðingum aukna atvinnuþátttöku haldast í hendur við bata efnahagslífsins í Þýskalandi. Þar er spáð 3,4 prósenta hagvexti á árinu. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×