Viðskipti innlent

Þorsteinn dæmdur til að greiða víxil upp á 150 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Þorstein M. Jónsson, oft auknefndur Steini í kók, til að greiða Nýja Landsbankanum víxil að upphæð 150 milljónir kr. ásamt dráttarvöxtum.

Víxillinn var á gjalddaga 10. ágúst 2008 í gamla Landsbankanum en við fall þess banka tveimur mánuðum síðar færðist krafan yfir í Nýja Landsbankann.

Þorsteinn bar því fyrir sig í málinu að frumrit víxilsins hefði ekki verið sýnt sér til greiðslu hvorki af gamla né nýja Landsbankanum. Frumritið var hinsvegar lagt fram í réttarhaldinu. Gerði Þorsteinn þrautavarakröfu í málinu að dráttarvextir yrðu ekki reiknaðir frá ágúst 2008, heldur frá 9. mars í ár þegar frumritið var lagt fram og féllst héraðsdómur á þá kröfu.

Í niðurstöðu dómsins segir m.a. að af hálfu Þorsteins hefur því verið haldið fram að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu. Því geti hann ekki verið viss um að bankinn sé réttur handhafi víxilsins.

Engin gögn hafa verið lögð fram um að víxillinn hafi verið sýndur til greiðslu á gjalddaga eða stefnda tilkynnt um hann. Það telst því ósannað í málinu. Eins og fyrr greinir leysir það Þorstein hins ekki undan greiðsluskyldu samkvæmt víxlinum. Frumrit víxilsins var lagt fram við þingfestingu málsins 9. mars 2009 og verður að telja að þá hafi farið fram fullnægjandi sýning á honum til greiðslu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×