Viðskipti innlent

Lýstar kröfur í þrotabú Björgólfs yfir 100 milljarðar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sveinn Sveinsson, skiptastjóri þrotabús Björgólfs Guðmundssonar, segir að heildarfjárhæð lýstra krafna í þrotabúið nemi nú rúmlega 100 milljörðum króna.

Lýstar kröfur í þrotabú Björgólfs Guðmundssonar eru núna rúmlega 100 milljarðar króna, að sögn Sveins Sveinssonar, skiptastjóra þrotabúsins. Sveinn sagði í samtali við fréttastofu að ekki lægi fyrir hversu mikið fengist upp í kröfur en skilanefnd Landsbankans er langstærsti kröfuhafinn með kröfur upp á rúmlega 70 milljarða króna.

Stærstur hluti þeirrar upphæðar eru persónulegar ábyrgðir, að sögn Sveins. Ekki er um að ræða kröfur vegna lánveitinga Landsbankans til stærsta eiganda síns.

Að sögn Sveins hefur þrotabúið ekki látið rifta neinum samningum milli tengdra aðila. Aðspurður hvort búast mætti við því að þrotabúið myndi reyna á riftun sagði hann ekki búast við því að svo stöddu, ekki hefðu komið upp tilvik sem kölluðu á slíkt.

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að vonir séu helst bundnar við að eignir finnist í félagi Björgólfs á Kýpur, Bell Global Investment. Bell Global hélt utan um hlut Björgólfs í Bravó-bruggverksmiðjunum í Rússlandi á sínum tíma og átti helmingshlut í Samson, eignarhaldsfélagi Landsbankans.

Félag Björgólfs á tæpan milljarð króna á bankainnstæðu hjá Landsbankanum í Lúxemborg, en eignir bankans voru kyrrsettar eftir hrun og hefur skilanefnd Landsbankans ekki getað hreyft við þeim.

Viðskiptablaðið greinir jafnframt frá því að Björgólfur sé talinn eiga hlut í prentsmiðjunni Typographia-MDM í Rússlandi í gegnum erlent dótturfélag Bell Global, en um sé að ræða þriðju stærstu prentsmiðju Rússlands. Eru kröfuhafar sagðir binda vonir við að eitthvað fáist upp í kröfur þeirra með sölu á eignarhlut Björgólfs í prentsmiðjunni.

Prentsmiðjunni er nú stýrt af Magnúsi Þorsteinssyni, fyrrum viðskiptafélaga Björgólfs sem nú er búsettur í Pétursborg, en bú hans hefur einnig verið tekið til gjaldþrotaskipta hér á landi eins og kunnugt er.

Þess má geta að Björgólfur Guðmundsson mat persónulegar eignir sínar á 143 milljarða króna í byrjun árs 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×