Viðskipti innlent

Rúm fjörutíu prósent fyrirtækja eru í vanskilum við Íslandsbanka

Fjárhagsleg endurskipulagning þarf að fara fram áður en hægt verður að skrá fyrirtæki á markað, segir bankastjóri Íslandsbanka.
Fjárhagsleg endurskipulagning þarf að fara fram áður en hægt verður að skrá fyrirtæki á markað, segir bankastjóri Íslandsbanka. Fréttablaðið/GVA

Tæpur helmingur fyrirtækja er í skilum með lán sín við Íslandsbanka og tæp tíu prósent á athugunarlista. Rétt rúm fjörutíu prósent fyrirtækja eru í vanskilum. Sjávarútvegsfyrirtæki eru flest í skilum við bankann en tæp áttatíu prósent eignarhaldsfélaga. Þetta kom fram í máli Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, á morgunfundi Samkeppniseftirlitsins um yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum fyrir rúmri viku síðan.

Birna benti á að inni í eignarhaldsfélögunum væru oft á tíðum traust félög sem væru ýmist í skilum eða í fjárhagslegri endurskipulagningu. Jafnframt kom fram í máli hennar að bankinn hefði ekki tekið mörg fyrirtæki yfir. Þau sem lent hafi í höndum bankans fari hins vegar sem fyrst í söluferli sem sé opið og gagnsætt ef því verði komið við.

Birna kvaðst hins vegar hafa efasemdir um skráningu fyrirtækja í eigu bankanna á markað við núverandi aðstæður. Hún sagði markaðsskráningu vera ábyrgðarhluta og að vinna verði með fyrirtækin og laga til í rekstri þeirra áður en að skráningu geti komið. Þá sagði Birna það vænlegri leið að selja fyrirtækin fyrst fjárfestum, sem síðan kynnu að innleysa hagnað þegar þau yrðu skráð síðar á hlutabréfamarkað. - jab/óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×