Viðskipti innlent

Hátækni og þjónusta 5,5% af útflutningstekjum þjóðarinnar

Verðmæti útflutnings á hátæknivörum og þjónustu á síðasta ári nam 37 milljörðum íslenskra króna. Það jafngilti 5,5% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar.

Þetta kom fram í ræðu sem Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður Samtaka sprotafyrirtækja, flutti á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins á síðasta degi vetrar. Ræðan er birt í heild á vefsíðu SA.

Svana segir að á síðustu 10 árum hafi þessi verðmæti nærri fimmfaldast og frekari sóknarfæri séu til staðar innan hátækni- og sprotagreina á Íslandi. Tími sé kominn til að virkja mannauð betur á Íslandi en verið hefur til verðmætasköpunar.

„Á árunum 2002 til 2008, meðan á meintu góðæri stóð, ríkti kreppa og nauð í hátæknigeiranum hér á landi. Kreppa sem stoppaði vöxt þessarar greinar í mörg ár og orsakaðist fyrst og fremst af því að bankar og fjármálastofnanir soguðu til sín tæknimenntað vinnuafl og hrifsuðu til sín starfsfólk sprotafyrirtækjanna með alls kyns gylliboðum," segir Svana.

„Hrun íslenska fjármálamarkaðarins og íslensku krónunnar í árslok 2008 hafði í för með sér auknar útflutningstekjur þeirra fyrirtækja sem útflutning stunda og sprotafyrirtæki urðu á ný samkeppnishæf á vinnumarkaði. Svo virtist sem tími íslenskra sprotafyrirtækja væri runninn upp, en er víst að svo sé?"

Spurningunni svarar Svana í 12 liðum. Þar segir m.a.: „Það vantar sérmenntað tæknifólk á Íslandi og íslensk sprotafyrirtæki þurfa sem fyrr að sækja hæfa sérfræðinga til starfa frá útlöndum. Það eru einfaldlega ekki nógu margir tölvunarfræðingar, verkfræðingar og aðrir slíkir sérfræðingar hér á landi. En það er einnig skortur á sérmenntuðu fólki erlendis, þannig að samkeppnin um vinnuaflið er alþjóðleg."

Svana segir að sprotafyrirtækin þurfi alþjóðlega samvinnu, við kaupendur vöru og þjónustu, til að rannsóknarstarf og vöruþróun beri tilætlaðan árangur.

Sprotafyrirtæki þurfa að eiga greiða leið að samstarfi við háskóla, ekki aðeins innlenda heldur einnig erlenda. Þar er uppspretta þekkingar og þaðan koma í mörgum tilvikum sérfræðingarnir sem sprotafyrirtækin þurfa svo sárlega.

Þá vill Svana efla Tækniþróunarsjóð, afnema gjaldeyrishöftin og auka hvata innan menntastofnana, ekki síst háskólanna, til að starfsmenn þeirra vilji taka þátt í hagnýtri og atvinnuskapandi nýsköpun svo dæmi séu tekin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×