Viðskipti innlent

Segir umhverfisráðherra standa gegn endurreisninni

Viðskiptaráð Íslands gagnrýnir harðlega ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra varðandi Þjórsárvirkjanirþ Telur ráðið að umhverfisráðherra sé með þessu að standa með beinum hætti gegn endurreisn hagkerfisins.

Fjallað er um málið á vefsíðu Viðskiptaráðs. Þar segir að nú í vikunni synjaði umhverfisráðherra staðfestingar skipulagsbreytingum varðandi Þjórsárvirkjanir og ljóst má vera að ákvörðunin mun tefja mikið áætlaða uppbyggingu á svæðinu.

Umhverfisráðuneytið taldi sér ekki heimilt að staðfesta breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps og þann hluta aðalskipulags Flóahrepps 2006-2018 sem snýr að virkjun í Þjórsá. Synjunin byggir á þeim grundvelli að ráðuneytið taldi að ekki hefði verið farið eftir lögum í tengslum við greiðslu kostnaðar á áðurnefndum skipulagsbreytingum.

„Samtök atvinnulífsins hafa bent á að ekkert í skipulags- og byggingarlögum bannar sveitarfélögum að afla tekna til að standa straum af gerð aðalskipulags. Það er því í meira lagi undarleg lagatúlkun ráðherra að þar sem þetta sé ekki sérstaklega heimilt samkvæmt lögum, þá hljóti umrædd fjármögnun að stangast á við lög.

Þarna er langt seilst til að framfylgja persónulegum skoðunum ráðherra og virðist ákvörðunin lítið hafa með málefnalega afgreiðslu á efni skipulagstillagna sveitarfélaganna að gera. Undir þessi sjónarmið tekur Viðskiptaráð Íslands.

Viðskiptaráð hefur lagt áherslu á mikilvægi fjárfestingar og verðmætasköpunar við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi. Til að efla megi tekjugrunn hins opinbera, skapa ný störf og koma hagkerfinu á kjöl á nýjan leik er nauðsynlegt að efla hagvöxt og útflutningstekjur þjóðarinnar.

Með afstöðu sinni til stóriðjuframkvæmda stendur umhverfisráðherra með beinum hætti gegn endurreisn hagkerfisins með tilheyrandi búsifjum fyrir íslenskt atvinnulíf og heimili," segir á vefsíðunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×