Innlent

Hvernig er nýja hjónavígsluformið?

Þjóðkirkjan hefur lokið við drög að nýju hjónavígsluformi og sent til presta Þjóðkirkjunnar vítt um landið. Það tekur mið af nýjum hjúskaparlögum, sem leyfa hjónaband samkynhneigðra.

Samkvæmt drögunum fer prestur með eftirfarandi orð í upphafi athafnar: „Undursamleg eru verk þín Drottinn Guð vor. Undursamlega skapaðir þú manninn í þinni mynd, þú skapaðir hann í Guðs mynd." Hér getur prestur valið hvort hann bætir við „Þú skapaðir hann karl og konu".

Í forminu er tekið tillit til allra kynja: „Frammi fyrir Guðs augliti komum við saman þegar þið NN og NN játist ævitryggðum og eruð gefin/ gefnar/ gefnir/ saman í hjónaband." Einnig: „Saman eigið þið að standa við hlið hvort annars / hvor annarrar / hvor annars / í tryggð og trúfesti".

Sígildir lestrar svo sem þar sem segir: „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu", eru enn í boði, en velja má um aðra lestra líka, svo sem úr Rómverjabréfi þar sem Drottins börn eru hvött til að vera „ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×