Viðskipti innlent

Markaðurinn gerir ráð fyrir 1-1,5% verðbólgu næstu 3 árin

Skuldabréfamarkaðurinn gerir ráð fyrir að verðbólga næstu þrjú ár verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans eða í kringum 1-1,5% verðbólga á ári.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka þar sem verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði er brotið niður eftir árum þannig að hægt er að skoða hversu mikla verðbólgu markaðurinn gerir ráð fyrir á næstu árum.

Greiningin ber saman sína eigin verðbólguspá við spá markaðarins og kemur í ljós að markaðurinn bjartsýnni á verðbólguhorfur næstu ár. „Það er þó alls ekki hægt að útiloka að svo lágt verðbólguálag standist horft fram á veginn, en á tímabilinu 1994-1999 mældist meðalverðbólgan 1,6% - við höfum því séð 5 ára tímabil lágrar verðbólgu á sama tíma og gengið hélst stöðugt," segir í Markaðspunktunum.

Síðan segir að eftir mikla verðbólgu síðustu ár bendir allt til þess að við taki tímabil lágrar verðbólgu. Stöðugt gengi , vegna hafta, hóflegar launahækkanir, lækkandi fasteignaverð, áframhaldandi slaki í hagkerfinu og lækkandi fjármagnskostnaður fyrirtækja, í kjölfar endurskipulagningar og lægri vaxta hérlendis, ættu að valda því að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á næstu misserum.

Verðbólguálag á markaði í upphafi árs var í kringum 4,5% þ.e. 5 ára álag en hefur lækkað eftir því sem verðbólguhorfur hafa batnað. Í lok nóvember stóð álagið í um 2,7%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×