Viðskipti innlent

Forsetinn: Við erum aðalfélagar Kína í jarðvarmaorku

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands fullyrðir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að Ísland sé aðalfélagi (primary partner) Kína þegar kemur að þróun og vinnslu jarðvarmaorku. Forsetinn er nú staddur í Abu Dhabi vegna verðlaunaafhendingar.

„Bæði Wen Jiabao forsætisráðherra og Xi varaforseti, sem er að verða næsti forseti Kína, hafa lýst því yfir að á grundvelli þess sem Kína og Ísland hafa unnið að í sameiningu á sviði jarðvarmaorku líti Kína nú á Ísland sem aðalfélaga sinn í umbreytingu Kína í jarðorkugeiranum," segir Ólafur Ragnar í samtalinu við Bloomberg.

Fram kemur í fréttinni að China Petrochemical Corp., sem er annar stærsti framleiðandi á olíu og kolum í Kína, ætli að láta jarðvarmaorkuvinnslu verða ein af aðalviðskiptum sínum á næstu fimm árum. Eitt af dótturfélögum þess, Sinopec Star Petroleum Co., hefur undirritað samkomulag við Geysir Green Energy um vinnslu jarðvarmaorku.

„Þeir í Kína eru að gera það sem við gerðum í Reykjavík," segir forsetinn. „Þegar ég var strákur var Reykjavík hituð upp með kolum og olíu en í dag er borgin algerlega hrein og jarðorkuvæn."

Þá bentir forsetinn á að Íslendingar væru að sinna verkefnum á þessu sviði í samstarfi við Indverja, Austur-Afríku, Mið-Ameríku og Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×