Innlent

Korn og gras virðist spretta betur í dökkri öskunni

Askan úr Eyjafjallajökli virðist hafa þau áhrif að bæði korn og gras vaxa betur en áður. Bóndi við Pétursey segir að dökk askan valdi því að meiri hiti sé í jarðveginum.

Hjónin í Eystri-Pétursey voru í heyskap í dag. Húsfreyjan Kristín Magnúsdóttir sló túnið en bóndinn Sigurjón Eyjólfsson fylgdi á eftir og sneri. Bæirnir undir Pétursey voru meðal þeirra sem urðu fyrir hvað mestu öskufalli í eldgosinu í vor.

Sigurjón segir að þau hafi haft talsverður áhyggjur af því að heyin yrðu rykmenguð. Þau séu nú bjartsýnni og þetta líti betur út en þau þorðu að vona. Ummerki öskufallsins sjást glöggt í túninu en um þriggja sentímetra þykkt öskulag er að jafnaði í rótinni. Sigurjón segir að það hafi sérstaklega verið mikið af þessu fína ryki sem kom í restina. Þau slá grasið ofarlega og ætla að hirða heyið í blautari kantinum í von um rykið verði þá minna.

Við hliðina á túninu er bygg að vaxa í dökkri öskunni en öfugt við það sem flestir myndu ætla þá vex kornið nú sem aldrei fyrr. Sigurjóni sýnist kornsprettan ætla að verða mjög góð þetta árið. Hann telur að jarðvegurinn sé heitari í rótinni þegar sólin hitar upp öskuna og segir að mjög mikil gróska sé í korninu.

Og sama virðist gilda um grasvöxtinn og kveðst bóndinn ekki frá því að hann sé einnig ívið meiri. Mikil spretta hafi verið í grasinu síðustu daga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×