Viðskipti innlent

SP-Fjármögnun braut gegn lögum um ólögmæta viðskiptahætti

Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að SP-Fjármögnun hafi brotið gegn lögum um óréttmæta viðskiptahætti. Niðurstaðan kemur í framhaldi kvörtunnar yfir skilmálum bílasamnings við SP-Fjármögnun.

Fjallað er um málið á vefsíðu Neytendastofu. Þar segir að stofnunin hafi tekið ákvörðun í máli vegna kvörtunar yfir skilmálum bílasamnings við SP-Fjármögnun. Samningurinn var bæði í íslenskum krónum og erlendri myntkörfu.

Kvartað var yfir því að hlutföll hverrar myntar skv. samningnum hafi breyst frá því sem samið var í upphafi. Kvartað var einnig yfir vöxtum erlenda hluta lánsins þar sem ekki var í skilmálum greint frá því að greiða ætti sérstakt vaxtaálag auk þess að lántaka hafi verið veittar villandi upplýsingar um samningsvexti. Þá var kvartað yfir því að þegar lántaki óskaði eftir afriti af samningi sínum var honum sent óundirritað eintak samningsins sem ekki var að fullu samhljóða samningi aðilanna.

Niðurstaða Neytendastofu í málinu var sú að SP hafi brotið gegn lögum um neytendalán og lögum um óréttmæta viðskiptahætti með því að tilgreina ekki að greiða skyldi sérstakt vaxtaálag á vexti erlenda hluta lánsins. Stofnunin taldi ekki ástæðu til að grípa til aðgerða vegna breytta samningsins enda var ekki sýnt fram á að innheimta lánsins hafi verið í ósamræmi við skilmála upphaflegs samnings aðilanna.

Þá taldi stofnunin ekki ástæðu til að gera athugasemdir vegna breyttra hlutfalla hverrar myntar þar sem lánið væri tekið í tilteknum fjölda króna og mynta. Þegar hinar erlendu myntir væru umreiknaðar í íslenskrar krónur breytist hlutfall þeirra gagnvart hver annarri samhliða breytingum á gengi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×