Viðskipti innlent

Leigusamningum fjölgaði í maí

Í maí síðastliðnum var samtals 705 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst. Þetta er nokkur fjölgun frá fyrri mánuði þegar 625 samningum var þinglýst. Þá er þetta nákvæmlega sami fjöldi leigusamninga og þinglýst var í sama mánuði fyrir ári síðan samkvæmt upplýsingum sem Fasteignaskrár Íslands hefur birt.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að heldur virðist vera að draga úr þeirri miklu sókn sem varð í leiguhúsnæði í kjölfar bankahrunsins. Fyrstu 5 mánuði þessa árs var til að mynda samtals 3.765 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst sem er fækkun um tæplega 5% frá sama tímabili fyrir ári síðan.

Engu að síður er þó enn um gríðarlega mikla sókn í leiguhúsnæði miðað við það sem áður var. Þannig var t.d. aðeins 5.000 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á ári að meðaltali frá árinu 2005 og til og með 2007.

Ekki þarf að koma á óvart að sókn í leiguhúsnæði sé enn mikil enda eru aðstæður á íbúðamarkaði enn með því sniði að mörgum þykir fýsilegt að leigja enn um sinn frekar en að leggja í íbúðarkaup.

Í fyrsta lagi er enn útlit fyrir að íbúðaverð muni enn lækka áður en botninum verði náð, en Seðlabankinn gerir til að mynda ráð fyrir að íbúðaverð muni lækka út næsta ár.

Í öðru lagi er enn mikil óvissa um hvernig framboð og eftirspurn þróast á þessum markaði þar sem endurskipulagning á skuldum heimilanna er enn í vinnslu. Þessi óvissa sem hefur skapast um hvaða úrræði séu í boði og hvort meira sé í vændum hefur gert það að verkum að margir halda að sér höndum og bíða. Við þetta bætist svo að spurn eftir húsnæði til eignar er haldið niðri af atvinnuleysi og almennri óvissu í hagkerfinu.

Loks má benda á að lánskjör á íbúðalánum hafa ekki fylgt lækkandi verðtryggðum langtímavöxtum á markaði undanfarið þar sem Íbúðalánasjóður hefur hækkað vaxtaálag á fjármögnun sína verulega það sem af er ári. Í árferði sem þessu er því eðlilegt að margir sem áður hefðu íhugað íbúðakaup leiti á leigumarkaðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×