Viðskipti innlent

Gert er ráð fyrir 653 milljóna tapi hjá Reykjanesbæ í ár

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs Reykjanesbæjar verði jákvæð um 47 milljónir kr. en samstæðan sem inniheldur framkvæmdir Reykjaneshafnar og félagslegar íbúðir verði neikvæð um 653 milljónir kr. á næsta ári. Heildartekjur bæjarsjóðs eru áætlaðar 7.924 milljónir kr. en útgjöld 7.877 milljónir kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu en fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var samþykkt í gær. Gert er ráð fyrir að eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs á árinu 2010 verði 39,9% en samstæðu 23,3%. Eignir bæjarsjóðs á hvern íbúa nema 1639 milljónum kr. en skuldir 985 milljónum kr.

Áætlað er að skatttekjur án jöfnunarsjóðs aukist á árinu um 700 milljónir kr. vegna nýrra atvinnuverkefna sem hefjast á árinu, s.s. álvers í Helguvík , rafræns Gagnavers og heilsutengdrar ferðaþjónustu að Ásbrú. Þó er ekki gert ráð fyrir að skatttekjur á íbúa árið 2010 nái meðaltali sveitarfélaga á Íslandi, þar sem áhrif nýrra atvinnuverkefna verða ekki að fullu komin fram á árinu.

Álagningarhlutfall útsvars verður óbreytt frá árinu 2009, 13,28%, fasteignaskattur verður óbreyttur frá árinu 2009 eða 0,268%, umönnunargreiðslur til foreldra haldast óbreyttar kr. 25 þúsund sem og hvatagreiðslur k. 7.000 til niðurgreiðslu á menningar-, íþrótta- og tómstundastarfi ungmenna.

Gjaldskrá Reykjanesbæjar hækkaði ekki árið 2009 en nú verður að meðaltali 10% hækkun á ýmsum þjónustuliðum frá árinu 2008, s.s. á vistgjöldum leikskóla þar sem tímagjald verður kr. 2400, ýmsum bókasafnsgjöldum og aðgangi að íþrótta- og sundmiðstöðvum. Gjald í tónlistarskóla hækkar um 5% frá hausti 2010. Áfram verður frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri og eldri borgara, frítt í strætó og á söfn bæjarins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×