Viðskipti innlent

Viðsnúningur ríkissjóðs til hins verra orðinn 130 milljarðar

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu ellefu mánuði ársins 2009 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu er handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpa 123 milljarða kr., sem er 130,1 milljörðum kr. lakari útkoma en á sama tímabili í fyrra. Tekjur reyndust 25,1 milljarða kr. minni en í fyrra á meðan gjöldin jukust um 91,4 milljarða kr.

Þetta kemur fram á vefsíðu fjármálaráðuneytisins þar sem greint er frá greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrrgreint tímabil.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu ellefu mánuðum ársins voru tæpir 368 milljarða kr. sem er 25 milljarða kr. minna en á sama tíma árið 2008. Tekjurnar eru meiri en í áætlun fjárlaga en hún hljóðaði upp á rúma 354 milljarða kr. fyrir þetta tímabil.

Þar var þó ekki reiknað með þeim viðbótar tekjuöflunaraðgerðum sem gripið var til í maí og júní til að bregðast við miklum tekjusamdrætti í byrjun ársins. Aðgerðirnar hafa skilað þeim árangri að frávik tekna frá áætlun hefur skipt um formerki og orðið jákvætt, nú þegar aðeins vantar upplýsingar um innheimtu desembermánaðar.

Greidd gjöld námu 483,9 milljörðum kr. og jukust um 91,4 milljarða kr. frá fyrra ári, eða 23,3%. Milli ára jukust vaxtagjöld ríkissjóðs mest eða um 45,2 milljarða kr.

Þá hækkuðu útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála um 23,6 milljarða kr. sem skýrist að mestu með 20,7 milljarða kr. hækkun útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs, 3,4 milljarðs kr. hækkun á vaxtabótum og 1,2 milljarða kr. hækkun á barnabótum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×