Erlent

Neitunin vekur víða furðu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stríð við Ísland Bloggarinn Iain Martin á Wall Street Journal veltir því fyrir sér hvort Gordon Brown ætli að gera innrás.
Stríð við Ísland Bloggarinn Iain Martin á Wall Street Journal veltir því fyrir sér hvort Gordon Brown ætli að gera innrás.
Allir helstu fjölmiðlar heims skýrðu frá því á vefsíðum sínum í gær að forseti Íslands hefði ákveðið að vísa Icesave-lögunum til þjóðaratkvæðis.

„Ísland neitar að borga bankaskuld“, segir í fyrirsögn danska dagblaðsins Politiken og þýska tímaritið Spiegel talar um bakslag í málinu.

Víða er vitnað í danska sérfræðinginn Lars Christensen hjá Danske Bank, sem sendi frá sér yfirlýsingu í gær: „Þetta mun stefna í alvarlega hættu samningi Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og getur því dýpkað enn frekar hina alvarlegu efnahags- og fjármálakreppu á Íslandi,“ segir hann.

Á vefsíðum þýska tímaritsins Spiegel er Hans van Baalen, þingmaður á Evrópuþinginu, sem segir ótækt að hleypa Íslandi inn í Evrópusambandið ef íslenska þjóðin hafnar Icesave-lögunum.

Í hollenskum fjölmiðlum er einnig rætt við þingmanninn Frans Weekers, sem segist hafa fengið nóg af Íslendingum: „Þetta land er ekki traustsins vert. Við erum nógu góð fyrir þau þegar þau þurfa peninga en ekki þegar kemur að endurgreiðslu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×