Innlent

Sjúkraliða dæmdar 5,8 milljónir vegna ólögmætrar uppsagnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sjúkraliði sem var forstöðumaður dvalarheimilis fyrir aldraða í Stykkishólmi hefur fengið dæmdar 5,8 milljónir króna í bætur vegna ólöglegrar uppsagnar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms Vesturlands að bornar hefðu verið á konuna ýmsar ávirðingar, meðal annars af hálfu starfsmanna hennar. Í samtali sem hún hafi átt við bæjarstjóra og stjórnarformann dvalarheimilisins hafi hún talið að sér hefði verið gert að segja upp störfum eða vera sagt upp störfum. Hún hafi mótmælt uppsögninni og síðan stefnt bænum á þeirri forsendu að ráðningasamningi hennar hefði ekki verið sagt upp með þeim hætti sem áskilið er í lögum.

Héraðsdómur Vesturlands taldi að uppsögn hafi verið reist á ætluðum ávirðingum sem ekki höfðu verið kannaðar nægjanlega, auk þess sem stefnanda hafi ekki verið gefið svigrúm til að tjá sig áður en ákvörðun var tekin. Hafi konan því orðið fyrir ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu.

Auk þess að greiða 5,8 milljónir í bænum var Stykkishólmsbær jafnframt dæmdur til að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×