Viðskipti innlent

Lánið frá AGS kostar um fimm milljónir á dag

Ingimar Karl Helgason skrifar

Lánið sem við fengum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í lok nóvember, kostar um fimm milljónir króna á dag, enda þótt það sé ekkert notað. Lánið er geymt á reikningi í Bandaríkjunum, en vextirnir þar eru umtalsvert lægri en þeir sem við þurfum að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Doktor í hagfræði segir að við ættum að semja við sjóðinn upp á nýtt.

Það var í lok nóvember sem þáverandi forystumenn ríkisstjórnar tilkynntu um hátt lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ríflega tvo milljarða bandaríkjadala. Skömmu síðar kom fyrsti hluti lánsins um 830 milljónir dala inn á reikning Seðlabankans í New York.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá seðlabanka Íslands í dag, eru vextirnir á láninu þó að jafnaði um tveimur prósentustigum hærri en það sem við fáum í innlánsvexti í bandaríkjunum; vextirnir séu reyndar breytilegir. Ekkert mun hafa verið notað af láninu, segir Seðlabankinn. Ef gróft er reiknað þurfum við að greiða upp undir tvo milljarða króna af þessum fyrstu 830 milljónum dala í vexti til alþjóðagjaldeyrissjóðsins, umfram það sem við fáum í vexti af því að geyma peningana á reikningi.

Lilja Mósesdóttir doktor í hagfræði segir að við ættum að semja við sjóðinn upp á nýtt: „Skortur á lánstrausti neyddi okkur til þess að fara til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og biðja þar um lán og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hann er enginn góðgerðarstarfsemi heldur lánar á marksvöxtum og líka með skilyrðum sem eru mjög dýr,“ segir Lilja. „Vaxtastig fer almennt lækkandi í heiminum sem þýðir þá bæði lægri vextir á innlánsreikningum eins og þessum sem við erum með peningana okkar í New York og líka á útlánum en okkar leið kannski til þess að draga úr þessum vaxtamun er að fara til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og endursemja um vaxtakjörin á lánunum okkar.“












Fleiri fréttir

Sjá meira


×