Viðskipti innlent

Fyrstu hópuppsagnir í sögu Jarðborana

Þar sem ljóst er að mannaflaþörf Jarðborana hf. minnkar til muna á næstunni eru uppsagnir um 30 starfsmanna óhjákvæmilegar. Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem gripið er til hópuppsagna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að samhliða efnahagserfiðleikum á Íslandi hefur verkefnum Jarðborana hf. við borun eftir jarðhita fækkað verulega, auk þess sem tafir á framgangi stórframkvæmda hafa haft neikvæð áhrif. Er nú svo komið að draga þarf úr starfsemi félagsins hér á landi, og eru uppsagnir starfsfólks hluti þeirra aðgerða. Þetta er nauðsynlegt þrátt fyrir verksamninga sem gerðu ráð fyrir fullri nýtingu borflotans allt fram til ársins 2012.

Reynt hefur verið í lengstu lög að komast hjá uppsögnum en þar sem ekki er útlit fyrir að ástandið batni á næstu mánuðum er félaginu nauðugur einn kostur að grípa til þessara aðgerða nú. Að sögn Bents Einarssonar, forstjóra Jarðborana, er þetta mjög erfið ákvörðun.

"Við erum að segja upp mjög hæfu starfsfólki með sérhæfða reynslu. Þetta er gott fólk sem við viljum ekki missa og það vissulega sárt ef við missum það varanlega frá okkur. Ef svo fer tapast hluti þeirrar þekkingar og forskots sem við höfum í dag í jarðvarmanýtingu og aðrar þjóðir hafa svo mikinn áhuga á," segir Bent.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir standa vonir til að óvissu létti um verkefnastöðu félagsins svo unnt verði að bjóða starfsmönnum endurráðningu. Mestu skiptir að ekki verði óþarfa tafir á að nýta orkulindir er varða stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.

Eftir uppsagnirnar munu um 150 manns starfa hjá Jarðborunum en þegar mest var sumarið 2008, störfuðu um 210 manns hjá félaginu. Jarðboranir eru með verkefni erlendis fyrir einn bor á Azoreyjum, en þar munu starfa á vegum félagsins um 40 manns fram eftir næsta ári. Vegna óvissuástandsins hér á landi er unnið að því að markaðssetja bora félagsins í verkefni erlendis, og þá m.a. í gegnum dótturfélag Jarðborana í Þýskalandi, en erfitt er að segja til um hvort eða hvenær það tekst.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×