Viðskipti innlent

Hafnarfjörður tapaði 347 milljónum fyrrihluta ársins

Milliuppgjör Hafnarfjarðarbæjar fyrir fyrstu 6 mánuði ársins hefur verið lagt fram en samkvæmt niðurstöðutölum þess eru rekstrartekjur í góðu samræmi við áætlun. Afkoma rekstrarreiknings er neikvæð um 138 milljónir í samstæðu en um liðlega 347 milljónir í A-hluta, þe. aðalsjóði og eignasjóði.

Í tilkynningu segir að helstu frávik í rekstri frá áætlun koma fram í auknum útgjöldum til félagsmála, framfærslu og húsaleigubóta sem hafa hækkað um nær 100% frá sama tíma á sl. ári. Þessi mikla hækkun er töluvert umfram það sem áætlað hafði verið. Þá fer einnig launakostnaður í skólakerfi nokkuð umfram áætlun og kostnaður vegna sumarstarfa unglinga.

Meginástæða þessa skýrist m.a. af því að samþykkt hagræðing á þessum málasviðum og endurskoðun á fjárhagsáætlun kemur ekki til fyrr en á síðari hluta ársins. Kostnaðartölur fyrir nýliðna mánuði sína að sú hagræðing sem lagt var upp með er að skila sér að stórum hluta.

Fjárfestingar á fyrri hluta ársins eru nær eingöngu vegna áframhaldandi byggingar við íþróttamiðstöðina í Kaplakrika, sem hófst fyrir rúmum tveimur árum. Þá standa Fráveita og Vatnsveita Hafnarfjarðar í nokkrum verkum, en auk þess sem á fyrir hluta ársins var lokið við verkefni í leik- og grunnskólum, auk sundlaugarmannvirkja. Viðhaldsverkefni hafa verið nokkur í sumar tengt fasteignum bæjarins, en þó minni en umliðin ár.

Ekki hefur verið leiðrétt í milliuppgjöri vegna endurmats á eignum sveitarfélagsins. Við endurskoðun fjárhagsáætlunar var sú víðtæka vinna sett af stað. Eignamatið hefur ekki verið skoðað í nokkur ár. Duldar eignir liggja einnig hátt í tug milljarða í lóðum og löndum en lóðaskil hafa verið veruleg á umliðnum mánuðum, þó mest á árinu 2008. Er endurgreiðslan með verðbótum nær 7 milljörðum og hefur bæjarráð óskað eftir sérstakri greinargerð vegna eignamyndurnar í gatnagerð og lóðum.

Gengishrun krónunnar og hátt verðbólgustig ráða mestu um aukningu á skuldum og fjármagskostnaði sveitarfélagins en samhliða víðtækri vinnu við hagræðingu á öllum rekstrarsviðum bæjarfélgasins er einnig unnið að skuldbreytingum lána og endurfjármögnun.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×