Viðskipti innlent

Álver gæti brætt 50% jöklabréfanna

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Hugmyndir um að leysa töluverðan hluta jöklabréfavandans með því að skipta þeim yfir í skuldabréf í dollurum sem Norðurál (Century Aluminium) myndi gefa út eru komnar lengra á skrið en áður var talið. Hægt væri að losa um 50% útistandandi jöklabréfa ef þessar hugmyndir verða að veruleika.

Samkvæmt heimildum Fréttastofu hefur stjórn Norðuráls áhuga á að skoða þessa leið náið og hefur verið með málið á borði sínu um nokkurt skeið. Vandamálið hefur aðallega legið í því að finna út hverjir séu eigendur jöklabréfanna í augnablikinu.

Dæmið lítur nokkurn veginn þannig út að heildarkostnaður við byggingu álversins í Helguvík liggur nú á bilinu 150 til 180 milljarðar kr. Talið er að innlendur hluti þess kostnaðar, sem greitt yrði fyrir í krónum sé um 40% eða rúmir 60 milljarðar kr. Útistandandi jöklabréf nú nema 116 milljörðum kr. enda hefur töluverðum hluta þeirra verið breytt í ríkisbréf á síðustu mánuðum.

Norðurál er tilbúið að gefa út skuldabréf í dollurum upp að þessari upphæð, 60 milljarðar kr. til að standa straum af innlenda kostnaðinum. Skuldabréfin yrðu til nokkurra ára og ekki byrjað að borga af þeim fyrr en rekstur álversins í Helguvík væri kominn í gang og byrjaður að gefa af sér.

Óformlegar samningaviðræður við hluta af eigendum krónubréfanna eru hafnar og samkvæmt heimildum Fréttastofu er vilji fyrir því af beggja hálfu að fara þessa leið. En það þarf að semja um á hvaða dollaragengi skiptin færu fram og hvaða vexti skuldabréfin eigi að bera. Samkvæmt heimildum Fréttastofu er Norðuráli umhugað um að ná hagstæðum kjörum hvað gengi og vexti varðar enda væri félagið að taka á sig gengisáhættuna í þessum viðskiptum.

Stjórnvöld eiga hlut að málinu enda er þeim umhugað að fyrrgreind viðskipti fari fram þar sem slíkt myndi létta verulega á þrýstingnum sem verið hefur á gengi krónunnar undanfarnar vikur og útlit er fyrir að haldist í náinni framtíð.

Svein Harald Øygard seðlabankastjóri kom inn á málið í ræðu sinni á síðasta ársfundi bankans. Þar sagði hann m.a. að Seðlabankinn meti nú sérstök úrræði sem gætu gert óþolinmóðustu erlendu fjárfestunum sem hafa verið bundnir af gjaldeyrishöftum kleift að skipta skuldabréfum sínum í íslenskum krónum með þeim hætti að ekki komi niður á gjaldeyrisforða bankans.

Það sem Norðurál er með á prjónunum nú fellur að stefnu seðlabankastjóra og mun vinna vera á fullu í bankanum við að útfæra ýmsar leiðir til að koma jöklabréfunum í lóg án þess að það valdi verulegri niðursveiflu á gengi krónunnar. M.a. er unnið að því að koma á sambandi milli eigenda bréfanna og þeirra íslensku aðila sem hafa áhuga eða tök á að skipta bréfunum út án þess að slíkt hreyfi við gengi krónunnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×