Viðskipti innlent

Ríkið tilbúið fyrir harðan vetur

Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson

„Halli á fjárlögum er meiri en áætlað var í sumar. Því sýnist manni sem ríkissjóður sjái fram á meiri fjárþörf en áður var ráðgert," segir Jón Bjarki Bentson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

Gert var ráð fyrir 152 milljarða króna halla á fjárlögum á þessu ári. Í fjárlögum sem lögð voru fram í gær er hins vegar reiknað með 182,3 milljarða halla á þessu ári og 87,4 milljarða halla á næsta ári.

Lánasýsla ríkisins greindi frá því á þriðjudag að eftirspurn eftir óverðtryggðum ríkisbréfum hafi verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hafi ársáætlun upp á 145 milljarða króna útgáfu verið náð í ágúst. Því sé stefnt að allt að sextíu milljarða króna ríkisbréfaútgáfu á árinu til viðbótar.

Erlendir fjárfestar hafa öðrum fremur fjárfest í ríkisbréfum sem þessum og eiga nú rétt rúman helming þeirra. Helst hafa þeir sótt í ríkisbréf til skemmri tíma sem bera á bilinu 7,15 til 8,5 prósenta vexti.

Innistæður ríkissjóðs hjá Seðlabankanum vegna útgáfu ríkisbréfa námu í ágústlok tæpum 203 milljörðum króna. Vextir á innlánsreikningum Seðlankans eru 9,5 prósent og hefur ríkissjóður því 1,0 til 2,3 prósenta vaxtatekjur af innistæðunni.

Jón Bjarki bendir á að innistæðan endurspegli lausafjárstöðu ríkissjóðs. Ljóst sé að ríkið hafi undirbúið sig ágætlega fyrir erfiðan vetur með útgáfu ríkisbréfa og gefi það stjórnvöldum svigrúm til að mæta hallarekstri ef í harðbakka slær. - jab












Fleiri fréttir

Sjá meira


×