Erlent

Lifandi hákarl skilinn eftir á tröppum dagblaðs

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Heterodontus portusjacksoni er þokkalega vígalegt kvikindi og getur náð 160 cm lengd. Sá sem hér greinir frá var þó ekki nema 70 cm. Þetta er ekki hann.
Heterodontus portusjacksoni er þokkalega vígalegt kvikindi og getur náð 160 cm lengd. Sá sem hér greinir frá var þó ekki nema 70 cm. Þetta er ekki hann.

Lögregla í Warrnambool í suðausturhluta Viktoríufylkis í Ástralíu klórar sér nú í höfðinu yfir því furðulega uppátæki óþekkts eða óþekktra aðila að skilja eftir lifandi hákarl við útidyr Standard-dagblaðsins þar í bænum í gærmorgun.

Dýrið var 70 cm að lengd og af tegundinni Port Jackson en þessi hákarlategund dregur nafn sitt af samnefndum bæ í Ástralíu og nær latneska heitið meira segja yfir það líka, heterodontus portusjacksoni.

Lögregluþjónninn Jarrod Dwyer kom á vettvang og skvetti vatni á hákarlinn til að kanna lífsmörk. Dýrið tók þá að bægslast um svo Dwyer hóf þegar lífgunartilraunir. Hann hljóp yfir á McDonald´s og fékk þar fötu með vatni. Svo skellti hann Jackson-hákarlinum í fötuna, ók í snarhasti með hann til sjávar og varpaði honum út í.

Þetta virtist duga til þar sem hákarlinn tók að svamla um hinn ánægðasti. Hvorki lögreglan né ritstjórn Standard átta sig á hvaða duldi boðskapur bjó að baki þessu sérkennilega uppátæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×