Skoðun

Óttinn við lýðræðið

Haraldur Flosi Tryggvason og Kristín Pétursdóttir skrifa um Evr­ópumál

Fjölmargir eru þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu kæmi landi og þjóð vel. Þá eru aðrir þeirrar skoðunar að Evrópusambandsaðild komi Íslandi og Íslendingum illa. Langflestir í þessum hópum eru jafnframt þeirrar skoðunar að lýðræðisfyrirkomulagið sé það fyrirkomulag sem best hentar íslensku samfélagi. Iðulega er þetta fólk sammála um að leggja beri samning um aðild að Evrópusambandinu í dóm þjóðarinnar.

En þá eru ekki allir taldir. Til eru þeir sem eru hræddir um að samningur um aðild að Evrópusambandinu verði ekki góður og að þjóðin muni þrátt fyrir það samþykkja slíkan samning í kosningum. Ótti kemur í veg fyrir að þetta fólk vilji ganga til samninga. Sami ótti setur lýðræðishalla á íslenskt samfélag, því sumir virðast reiðubúnir til að berjast gegn aðildarviðræðum á þessum grundvelli. Sú afstaða kemur í veg fyrir að þjóðin geti kosið um málið.

Haraldur Flosi Tryggvason.

Til að koma til móts við viðhorf síðastnefnda hópinn hafa stjórnmálamenn, bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna, lagt til að þjóðin kjósi um það hvort ganga eigi til samninga um aðild að Evrópusambandinu. En um hvað ætti slík kosning að snúast? Væri ekki réttast að þar væri spurt hvort þú óttist um að aðrir velji á endanum eitthvað sem þér ekki líkar. Með öðrum orðum þá snerist spurningin um hvort þú óttaðist lýðræði eða ekki. Hverskonar ákvörðun kæmi út úr slíkri kosningu? Ef niðurstaðan yrði sú að þjóðin óttaðist ekki lýðræðið þá mætti túlka hana þannig að taka skuli ákvörðun um málið reista á rökum. Að öðrum kosti væri niðurstaðan sú að þjóðin vildi láta óttann stjórna sér, hún teldi rétt að leita ekki upplýsinga. Val af þessu tagi getur engan veginn talist til upplýstrar ákvarðanatöku og er óboðlegt lýðræðisþjóð.

Við teljum að umtalsverð líkindi séu til þess að Evrópusambandsaðild væri gæfuspor fyrir íslenska þjóð. Við erum sammála um að mikil­vægt sé að afla betri upplýsinga um málið með aðildarviðræðum og að niðurstaðan skuli borin undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í lýðræðislegum kosningum. Við höfum ásamt tæplega 15.000 öðrum undirritað yfirlýsingu þessa efnis á heimasíðunni www.sammala.is í þeim tilgangi að hvetja stjórnvöld til þess að ganga óhrædd til aðildarviðræðna og þjóðina til að ganga óhrædd til kosninga.

Við teljum brýnt að skoða alla kosti sem gætu leitt til endurnýjaðs stöðugleika og hagsældar á Íslandi. Látum ekki óttann við lýðræðið koma í veg fyrir að þjóðin taki afstöðu til þessa mikilvæga máls.

Sami ótti setur lýðræðishalla á íslenskt samfélag, því sumir virðast reiðubúnir til að berjast gegn aðildarviðræðum á þessum grundvelli. Sú afstaða kemur í veg fyrir að þjóðin geti kosið um málið.

Haraldur Flosi er lögfræðingur og Kristín forstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×