Viðskipti innlent

Starfsmenn Kaupþings gætu þurft að greiða 18 milljarða í skatt

Ef starfsmenn Kaupþings hafa fengið skuldir vegna hlutabréfaviðskipta í bankanum felldar niður, þurfa þeir að greiða samtals um átján milljarða í skatt. Verið er að skoða önnur fyrirtæki vegna svipaðra mála.

Fréttir af afskriftum skulda vegna hlutabréfaviðskipta starfsmanna Kaupþings ollu miklu fjaðrafoki eftir bankahrunið í haust. Talið er að starfsmenn Kaupþings hafi skuldað bankanum allt að 50 milljarða króna, en misvísandi upplýsingar bárust annars vegar frá stjórnendum gamla bankans og hins vegar stjórnendum nýja bankans á sínum tíma um hvort niðurfellingin hafi raunverulega farið fram. Málið er enn í lausu lofti, en ýmis lögfræðileg álitaefni koma upp við úrlausn þess - meðal annars vegna þess að í mörgum tilfellum voru einkahlutafélög mynduð utan um viðskiptin.

Ef skuldaniðurfellingin gengur eftir þurfa starfsmenn bankans sem fengu slíka ívilnun að greiða samtals tæpa 18 milljarða króna í skatt vegna þess. Það er vegna þess að niðurfelling skulda starfsmannana væri túlkuð sem laun og hún skattlögð eins og hver önnur launagreiðsla. Stutt er síðan landsmenn skiluðu inn skattskýrslu fyrir árið 2008, en skattalög kveða á um að telja beri til tekna allar niðurfellingar skulda, nema þær stafi af nauðarsamningum, greiðsluaðlögun eða gjaldþroti.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur þetta umdeilda mál ekki verið til lykta leitt skattalega séð, enda ekki enn ljóst hvort eða hvenær skuldirnar voru felldar niður. Ekki náðist í Steinar Þór Guðgeirsson, formann skilanefndar Kaupþings, né Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Nýja Kaupþings í dag, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Heimildir fréttastofu herma að þetta mál sé ekki einsdæmi og verið sé að skoða önnur fyrirtæki vegna svipaðra mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×