Viðskipti innlent

FME og sérstakur saksóknari undirrita verklagsreglur

Sérstakur saksóknari og settur forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) undirrituðu fyrir helgina verklagsreglur til grundvallar samstarfi sínu.

Reglurnar hafa það markmið að greiða fyrir upplýsingaflæði milli aðila, stuðla að auknum skilningi á verkaskiptingu aðila og koma í veg fyrir að mál verði rannsökuð samtímis á fleiri en einum stað.

Í reglunum segir m.a. að FME skuli veita sérstökum saksóknara yfirlit yfir stöðu mála sem það hefur til meðferðar og kunna að verða send honum til lögreglurannsóknar og ákærumeðferðar. Á sama hátt skal sérstakur saksóknari greina FME frá málum sem hann hefur móttekið og kunna að vera á eftirlits- og rannsóknarsviði FME.

Í reglunum er m.a. kveðið á um samráðsfundi þar sem leitast er við að samræma verklag og skilgreiningu þeirra sakaratriða sem mál varða og þar sem skipst er á upplýsingum um stöðu mála og væntanlegar aðgerðir. Þá er einnig fjallað um nánari samvinnu og aðstoð við rannsókn einstakra mála.

Greint er frá málinu á vefsíðu FME.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×