Viðskipti innlent

Eign lífeyrissjóða í húsbréfum jókst um 98 milljarða á einu ári

Heildareign lífeyrissjóðanna í íbúðabréfum nam 334 milljörðum kr. í lok júlí og jókst um 14 milljarða kr. frá fyrri mánuði. Af tölum Seðlabankans að dæma hefur eign lífeyrissjóða frá því í ágúst á síðasta ári farið sívaxandi og hækkað um 98 milljarða kr. til loka júlí að krónutölu.

Greining Kaupþings fjallar um málið í Markaðspunktum sínum. Þar segir að ef leiðrétt er fyrir verðbótum og verðbreytingum á sama tímabili þá er aukningin reyndar minni eða í kringum 70 ma.kr. (þ.e. ef gengið er út frá því að öll bréfin séu skráð á markaðsvirði, en þó munu vera einhverjar undantekningar frá þeirri reglu.)

Aukin stöðutaka lífeyrissjóða í íbúðarbréfum endurspeglar að einhverju leyti takmarkaða fjárfestingarkosti hér á landi enda koma gjaldeyrishöft í veg nýjar fjárfestingar á erlendri grund.

Á árinu 2008 námu greidd iðgjöld í alla lífeyrissjóði á Íslandi rúmum 113 milljörðum kr. á sama tíma og útgreiðsla lífeyris nam um 54 milljörðum kr. Nýtt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna vegna iðgjalda nam því um 59 milljörðum kr. á síðasta ári. Við þetta bætast svo umfangsmiklar vaxtatekjur lífeyrissjóðanna, einkum ef horft er á stöðu sjóðanna í innlánum, ríkisbréfum og íbúðabréfum, en allir fjárfestingarkostirnir hafa skilað háum vöxtum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×