Viðskipti innlent

Kröfur SÍ á innlend fyrirtæki fjörutíufölduðust á áratug

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Merki Seðlabanka Íslands
Merki Seðlabanka Íslands Mynd/Pjetur
Útistandandi kröfur Seðlabanka Íslands á innlend fjármálafyrirtækji náðu metfjárhæðum í nóvember árið 2008 þegar þær námu tæpum 811 milljörðum króna. Þær höfðu þá margfaldast á skömmum tíma en í nóvember 2007 námu þær rúmum 247 milljörðum. Það merkir að á einu ári þrefölduðust lán Seðlabankans til innlendra fjármálafyrirtækja.

Tíu árum fyrr, í nóvember 1998, námu sambærilegar kröfur nítján og hálfum milljarði króna. Á tíu árum meira en fjörutíufölduðust því kröfur bankans á íslenskar fjármálastofnanir.

Í nóvember á síðasta ári voru slíkar kröfur einkum ótilgreindar kröfur á íslensku bankana og svokölluð daglán til þeirra. Á þeim tíma nam eigið fé bankans rúmum 153 milljörðum, eða um fimmtungi útistandandi krafna. Umfang krafnanna hafði þá tekið stökk frá því í september, þegar þær námu um 497 milljörðum.

Eftir að bankarnir féllu hefur stór hluti krafna bankans færst á ríkissjóð og ríkisstofnanir, en slíkar kröfur nema í dag meira en 281 milljarði. Það kemur til vegna þess að ríkissjóður yfirtók veðlán fjármálafyrirtækjanna hjá bankanum að fjárhæð 345 milljarðar gegn 270 milljarða króna skuldabréfi.

Útistandandi kröfur bankans á innlánsstofnanir, fjármálafyrirtæki og ríkissjóð nema alls í dag tæpum 740 milljörðum.

Þetta kemur fram í reikningum Seðlabankans sem hagfræðisvið bankans tók saman og lét fréttastofu góðfúslega í té, en frétt sem birtist á Vísi í dag um lán Seðlabankans var unnin upp úr takmarkaðra skjali. Réttar upplýsingar um innlendar eignir seðlabankans aftur til 1995 má nálgast hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×