Viðskipti innlent

Meira jafnvægi er að komast á einkaneyslu landsmanna

Greining Íslandsbanka segir að nýlegar hagtölur bendi til þess að einkaneysla sé að komast í meira jafnvægi en hún hefur verið síðan fjármálakreppan skall á Ísland af fullum þunga í fyrrahaust.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að samdrátturinn í smásöluveltu er að minnka og var samdrátturinn núna í nóvember nokkuð minni en verið hefur að jafnaði undanfarna 12 mánuði.

Þannig var veltan í dagvöruverslun 3,6% minni að raunvirði núna í nóvember en í sama mánuði í fyrra en að jafnaði hefur samdrátturinn verið 6,7% undanfarna 12 mánuði. Samdrátturinn er samt umtalverður enn og sérstaklega í þeim vörutegundum sem næmastar eru fyrir þróun ráðstöfunartekna heimilanna.

Rannsóknasetur verslunarinnar birti tölur um þetta í gær en setrið spáir því að velta í smásölu í nóvember og desember verði óbreytt frá því í fyrra á föstu verðlagi.

„Ofangreindar tölur er í samræmi við aðrar hagtölur á borð við kortaveltu og væntingar neytenda sem hafa birst undanfarið og gefið hafa vísbendingar um að meira jafnvægi sé að komast í einkaneyslu. Í október síðastliðnum var minnsti samdráttur á ársgrundvelli sem mælst hefur í kortaveltu síðan í september 2008," segir í Morgunkorninu.

„Jafnframt virðast væntingar neytenda eitthvað vera að þokast í átt að meiri jákvæðni. Þannig mældist Væntingavísitala Gallup í nóvember töluvert hærri en hún var á sama tíma fyrir ári, auk þess sem gildi hennar var töluvert hærra en það hefur verið að jafnaði frá hruni bankanna.

Hins vegar gætir enn töluverðrar svartsýni, auk þess sem atvinnuleysi fer vaxandi og ráðstöfunartekjur heimilanna minnkandi sem má telst seint vera hvetjandi fyrir verslun. Athyglisvert verður að sjá hvernig jólaverslunin verður en samkvæmt fréttatilkynningu Rannsóknarseturs verslunarinnar virðist hún fara rólega af stað og spáir því að velta í smásöluverslun verði óbreytt frá því í fyrra á föstu verðlagi."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×