Viðskipti innlent

Segir afnám kvótakerfisins heimskustu leiðina

„Svo virðist sem íslensk stjórnvöld vilji skipta um stefnu og afnema kvótakerfið. Það væri það heimskasta sem þau gætu gert. Það felst enginn ávinningur í því að gera út fleiri báta en þörf er fyrir."

Þetta segir Rögnvaldur Hannesson, prófessor í fiskihagfræði við Verslunarháskóla Noregs í Björgvin, í viðtali í nýjasta eintaki fréttablaðsins Northern Fisheries, sem gefið er út af Norræna ráðherraráðinu.

Fjallað er um viðtalið á vefsíðu LÍÚ. Þar segir að í viðtalinu ræði Rögnvaldur m.a. um hugmyndir stjórnvalda um fyrningarleið aflaheimilda og frjálsar strandveiðar. Hann vísar til strandveiðanna og segir að forðast beri ákvarðanir sem einkennist af lýðskrumi.

„Mistök af þessum toga hafa á liðnum árum eyðilagt stóran hluta þess ávinnings sem kvótakerfið hefði getað skapað," segir hann.

Rögnvaldur var einn margra fyrirlesara á ráðstefnu um skilvirkar fiskveiðar, sem fram fór í Reykjavík dagana 27. og 28. ágúst sl. Hann tekur í viðtalinu undir sjónarmið sem komu fram hjá fyrirlesurum frá Kanada og Nýja Sjálandi á ráðstefnunni. Þau voru þess efnis að fiskveiðistjórnunarkerfi með framseljanlegum aflaheimildum væri lykill að þeim árangri sem náðst hefði við stjórn veiða og uppbyggingu fiskistofna.

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni á vefsíðu LÍÚ.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×