Lífið

Íhuga að kaupa Hugverkasjóðinn

Guðmundur í Baggalúti er með auga fyrir góðum fjárfestingum.
Guðmundur í Baggalúti er með auga fyrir góðum fjárfestingum.

„Ég játa þessu hvorki né neita, en Baggalútur er opinn fyrir öllum góðum viðskiptatækifærum,“ segir Guðmundur Pálsson, einn af stjórnarmönnum viðskiptaundursins Baggalúts.

Fréttablaðið greindi frá því á miðvikudag að óvíst sé hvað verður um Hugverkasjóð Íslands í fárviðrinu sem geisar nú í fjármálaheiminum. Sjóðurinn gerði samning við listamenn á borð við Bubba Morthens, Jón Ólafsson, Stefán Hilmarsson og fleiri árið 2006 sem fól í sér að listamennirnir fengu eingreiðslu gegn því að stefgjöld þeirra rynnu í sjóðinn.

Málið hefur vakið mikla athygli og var meðal annars tekið upp á fundi hjá Baggalúti. „Þetta hefur verið rætt. Þetta fer eftir hvernig við komum út í ársuppgjöri. Það er verið að fara yfir fjárhagsstöðuna og það er allt inni í myndinni,“ segir Guðmundur.

Baggalútur fer nú eins og stormsveipur um íslenskt viðskiptalíf. Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að hópurinn íhugaði að festa kaup á styttu sem Kristinn Rúnar Hartmannsson hefur unnið að síðustu mánuði og Reykjanesbær hætti við að kaupa. Nú heillar Hugverkasjóður Íslands þá, enda einstaklega arðbær fjárfesting.

„Þetta er mjög góður fjárfestingarkostur og verðmætin munu bara aukast,“ segir Guðmundur. „Það getur verið að við þurfum að fjárfesta til að koma peningum á örugga staði – í umferð. Hjól atvinnulífsins mega ekki hætta að snúast.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.