Viðskipti innlent

Makaskipti halda uppi fölsku verði á fasteignamarkaði

Makaskipti hafa færst verulega í aukanna en það er þegar fasteignir eru notaðar í skiptum fyrir hið keypta. Í slíkum viðskiptum er hinu eldra skipt upp í á yfirverði en þannig fæst hærra lán á hina keyptu eign.

Greining Íslandsbanka fjallaði um málið í Morgunkorni sínu í gær en greiningin telur að makaskiptin haldi uppi fölsku verði á fasteignamarkaðinum. Makaskipti voru um 32% allra kaupsamninga í febrúar en 5% í sama mánuði í fyrra. Af þessu má draga þá ályktun að verð íbúðarhúsnæðis hafi lækkað meira en hinar opinberu tölur bera með sér.

Nafnverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um tæplega 4% frá hruni bankanna og um tæplega 6% á síðastliðnum tólf mánuðum. Þetta er viðlíka þróun og verið hefur á landinu öllu að meðaltali.

Lækkunin er lítil m.v. að hagkerfið er að ganga í gegnum eina erfiðustu kreppu sem það hefur tekist á við. Atvinnuleysi er nú meira hér en áður hefur mælst og það á tímabili þar sem heimilin er skuldsettari en nokkru sinni fyrr. Heimilin þurfa að standa skil á háum greiðslum vegna afborgana og vaxta á sama tíma og ráðstöfunartekjur margra þeirra eru að dragast saman.

Atvinnuleysið hefur aukist hratt hjá ungu fólki en þar eru skuldirnar líka hvað mestar. Eftir verðbóluna sem var á húsnæðismarkaði standa eftir margar óseldar íbúðir á sama tíma og þúsundir, aðallega erlendir verkamenn, hafa flutt af landi brott sökum efnahagsástandsins.

Ástæða þess að nafnvert hefur ekki lækkað meira en raun ber vitni liggur meðal annars í því hversu óvirkur íbúðamarkaðurinn er um þessar mundir. Ekki skortir framboð íbúðarhúsnæðis en eftirspurnin hefur hrunið. Kaupmáttarþróun, atvinnuástandið, væntingar um húsnæðisverðsbreytingar, skortur á lánsfé ásamt fleiri þáttum ráða þar för.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×