Viðskipti innlent

Vilhjálmur Bjarna: SPRON á alvarlegasta glæpinn

Vilhjálmur Bjarnason formaður Samtaka fjárfesta segir að stjórn SPRON hafi staðið fyrir alvarlegasta glæpnum á verðbréfamarkaðinum sem framinn hefur verið hér á landi sumarið 2007. Þá var opinn markaður í þrjár vikur með stofnfjárhluti í SPRON fram að skráningu sparisjóðsins í kauphöllina.

Á þessum tíma seldu stjórnarmenn í SPRON umtalsvert af stofnfjárhlutum og var Gunnar Gíslason umfangsmestur í þeim viðskiptum að sögn Vilhjálms. Hann nefnir einnig Ásgeir Baldurs og Hildi Pedersen auk Áslaugar Viggósdóttur eiginkonu Guðmundar Haukssonar. Mál Áslaugar komst í hámæli í gærdag eftir að Hæstiréttur skipaði formanni skilanefndar SPRON að upplýsa um nafn hennar sem seljanda að stofnfjárhlut til Davíðs Hanssonar.

Vilhjálmur segir einnig að fólk tengt Guðmundi Haukssyni þáverandi forstjóra SPRON hafi selt mikið af stofnfjárhlutum á fyrrgreindum þremur vikum. Viðskiptin í heild nemi sennilega á bilinu 4-5 milljörðum kr. en þeir sem keyptu hlutina töpuðu stórum upphæðum á þeim kaupum.

Mál SPRON var til umræðu á fundi hjá Samtökum fjárfesta í gærdag. Vilhjálmur segir augljóst að stjórn SPRON hafi beitt blekkingum með skipulögðum hætti í aðdraganda þess að sparisjóðurinn var skráður í kauphöllina. „Á þessum tíma var SPRON nær óstarfhæfur vegna þess hve reksturinn gekk illa," segir Vilhjálmur. „Hækkun á hutum í Exista hélt SPRON á floti og eiginfjárstaðan var svo lítil að henni var haldið uppi með víkjandi lánum frá Kaupþingi."

Vilhjálmur segir að í þessari stöðu hafi hluti af stjórnarmönnum SPRON selt stofnfjárhluti til fjárfesta sem ekki vissu um raunverulega stöðu SPRON. „Þessi markaður með stofnfjárhlutina átti að virka eins og kauphallarviðskipti þessar þrjár vikur en án allra þeirra reglna sem gilda um slík viðskipti í kauphöllinni," segir Vilhjálmur.

Eins og fram hefur komið áttu stjórnarmennirnir aðgang að verðmati á SPRON sem gert hafði verið fyrir skráninguna í kauphöllina. Þegar það verðmat var gert opinbert var það gagnrýnt af mörgum sem alltof hátt og ekki í samræmi við raunverulega stöðu SPRON á þessum tíma.

Davíð Hansson ætlar í mál til að fá kaupum sínum á stofnfjárhlut frá Ásdísi Viggósdóttur rift. Vilhjálmur segir að fáist sú niðurstaða fyrir Hæstarétti megi reikna með að aðrir sem keyptu sína hluti á sama tíma og Davíð muni einnig fá sínum kaupum rift.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×